Þetta er skemmtilegasta starf í heimi

Guðrún Helgadóttir forstöðumaður ungmennastarfs í Mosfellsbæ leggur áherslu á jákvæða liðsheild og virðingu.

Í félagsmiðstöðvum Mosfellsbæjar er boðið upp á uppbyggilegt frístundastarf fyrir 10-16 ára börn og unglinga. Markmiðið er að stuðla að jákvæðum og þroskandi samskiptum og örva félagsþroska þeirra og lýðræðisvitund.
Guðrún Helgadóttir forstöðumaður segir að börn og unglingar í Mosfellsbæ séu til einstakrar fyrirmyndar, þau séu bæði hugmyndarík og kurteis. Auðvitað passi ekki allir undir sama hatt en þá þurfi að finna leið til að þau finni sig og nái að vera besta útgáfan af sjálfum sér.

Guðrún er fædd á Akureyri 1. júlí 1975. Foreldrar hennar eru Helga Stefánsdóttir og Helgi R. Einarsson en þau störfuðu bæði sem kennarar.
Guðrún á þrjár systur, Hrönn f. 1970, Kristjönu f. 1972 og Ingu Rún f. 1987.

Snerting við sveitalífið
„Fyrstu ár ævi minnar bjó ég í Fnjóskadal, held að það hafi hentað mér einstaklega vel því ég er mikið náttúrubarn, það eru mikil forréttindi að fá að alast upp í sveit.
Við flytjum síðan í Mosfellssveit og hér vorum við með hesta og hund svo maður var með smá snertingu við sveitalífið hér líka. Við bjuggum í Teigahverfinu þangað til ég varð 11 ára og það var mikið af krökkum í hverfinu, hefðin var að vera í útileikjum á kvöldin.
Ég á einnig góðar minningar frá ferðinni okkar um Evrópu en þá vorum við fjölskyldan á flakki í heilan mánuð.“

Þetta er ótrúlegt en satt
„Ég gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos og skólagangan var frábær í alla staði. Ég var í sama bekk öll árin mín í Varmárskóla en síðan var bekknum stokkað upp. Ótrúlegt en satt þá var mamma mín umsjónarkennarinn minn öll árin í barnaskóla.
Þegar ég kom upp í Gaggó Mos þá tók pabbi við sem umsjónarkennari, fyrsta árið. Það er merkilegt að foreldrar mínir hafi komist heilir í gegnum þetta því ég var virkur krakki sem átti það til að masa mikið og hátt,“ segir Guðrún og brosir. „Ég eyddi miklum tíma í félagsmiðstöðinni Bólinu og ég hafði einnig gaman af leiklist og tók þátt í sýningum með Leikfélagi Mosfellssveitar.
Á sumrin vann ég í unglingavinnunni, var flokksstjóri í Vinnuskólanum og svo ferðaðist ég mikið, bæði með fjölskyldu og lúðrasveitinni. Ég vil meina að ég hafi verið að „túra með Lúðró“ því það hljómar svo töff. Ég vann einnig við ræstingar auk þess að vinna í síld en ekki misskilja mig, ég upplifði aldrei verbúðarlíf, því ég vann í Kópavogi.“

Hún græddi heldur betur á því
„Eftir útskrift úr gaggó þá fór ég í eitt ár á íþróttabraut í Árósum í Danmörku. Það var alveg einstakt, bæði þroskandi og skemmtilegt. Danski hópurinn varð mjög náinn enda fórum við í mörg ferðalög, ég mæli með þessu fyrir alla.
Ég byrjaði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti eftir að ég kom heim en varð svo ófrísk þannig að ég kláraði námið í kvöldskóla. Ég starfaði svo á Hjallastefnuleikskóla í Hafnarfirði í fjögur ár sem kveikti áhuga minn á að vinna með börnum.
Árið 1999 tók ég skyndiákvörðun og skellti mér í inntökupróf á hrossaræktarbraut í Bændaskólanum á Hólum og komst inn. Þá flutti ég ásamt Örnu dóttur minni í Skagafjörðinn og það hentaði mér vel. Ég var sú eina á hestabrautinni með barn og Arna græddi heldur betur á því, allir dekruðu við hana.
Í lok starfsnáms árið 2000 lenti ég í slysi við tamningar og axlarbrotnaði. Þar sem ég var ekki vinnufær í tamningum þá leitaði ég að öðru starfi og fór að vinna í Bólinu. Þetta var haustið 2000 en ég varð svo aðstoðarforstöðumaður 2001. Ég starfaði í Bólinu í 4 ár á meðan ég var í diplómanámi í tómstunda- og félagsmálafræði en á þessum árum var ekki farið að kenna fullt nám á Íslandi. Á haustönn 2004 fór ég í skiptinám til Kaupmannahafnar, eða um leið og námið var komið á BA stig á Íslandi.
Ég starfaði svo sem umsjónarkennari í Lágafellsskóla í tvö ár í 1995 árganginum, flottir krakkar.“

Fátt sem toppar góðar útilegur
Eiginmaður Guðrúnar er Jóhann Benediktsson stafrænn markaðsstjóri hjá Icelandair. Saman eiga þau tvö börn Einar Mána f. 2006 og Helgu Sóleyju f. 2008 en fyrir átti Guðrún Örnu Kristínu f. 1994. Heimilishundurinn Esja er að sögn Guðrúnar Ameríkani með áfallastreituröskun og geltir með hreim.
„Við fjölskyldan höfum ferðast mikið og gerum enn og svo er fátt sem toppar útilegur með fjölskyldu og vinum. Við förum árlega í þær og þar á meðal á hina alfrægu Leynihátíð sem er auðvitað alltaf einstök.
Heiti potturinn er í miklu uppáhaldi, að dansa við góða tónlist og hestaferðir veita ofurorku, bæði krafturinn sem reiðmennskan gefur auk gleðinnar sem góðir vinir gefa.“
Fluttu utan
„Árið 2008 fluttum við fjölskyldan til Danmerkur, ég byrjaði í fæðingarorlofi en fór svo í nám í mannauðsstjórnun í CBS viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar. Með náminu starfaði ég sem þjónn í klúbbi æðstu manna í sjóher Danmerkur. Síðar hóf ég störf sem deildarstjóri á leikskóla.
Árið 2015 fluttum við fjölskyldan til Boston og bjuggum þar í tvö ár. Ég var ekki með atvinnuleyfi svo ég kom inn í landið sem maki. Þá var ég bara „all-in“ húsmóðir, hjálpaði til við heimalærdóm, fór í ræktina og hitti nágrannanna í kokteil á veröndinni.“

Sami kjarninn til fjölda ára
„Ég hóf kennslu aftur í Lágafellsskóla eftir að við fluttum heim en fór svo aftur í félagsmiðstöðina Bólið, starfaði í eitt ár sem verkefnisstjóri en tók svo við sem forstöðumaður. Hér er ég enn í dag enda er þetta skemmtilegasta starf í heimi,“ segir Guðrún og brosir.
„Starfsemi okkar er á þremur stöðum og unglingarnir eru frábærir, hugmyndaríkir og kurteisir. Það þarf að passa upp á jákvæða liðsheild og virðingu en auðvitað passa ekki allir undir sama hatt. Þá er spurning að finna leið þannig að þeir finni sig og nái að vera besta útgáfan af sjálfum sér.
Það er nefnilega oft gallinn við okkar kerfi að allir eigi að passa í sama formið. Það er fátt betra en að hjálpa einstaklingi að finna sína hillu í lífinu og að hann upplifi að hann tilheyri einhvers staðar. Það tekur oft tíma að finna hina fullkomnu lausn fyrir ákveðinn einstakling eða hóp en þegar það heppnast þá er það hverrar mínútu virði.
Ég er með frábæran hóp starfsmanna í Bólinu, sami kjarninn til fjölda ára. Þau eiga það sameiginlegt að vera lífsglöð, sýna samkennd, leggja mikið í sína vinnu og vera til staðar fyrir unglingana. Það eru bestu eiginleikar sem starfsmenn geta haft að mínu mati og ég er svo þakklát fyrir þau,“ segir Guðrún að lokum er við kveðjumst.