Íþróttafólk Mosfellsbæjar heiðrað

Skarphéðinn Hjaltason og Erna Sóley Gunnarsdóttir.

Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2024 var heiðrað í Hlégarði þann 9. janúar.
Frjálsíþrótta­kon­an Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir er íþrótta­kona Mos­fells­bæj­ar og júdókapp­inn Skarp­héðinn Hjalta­son er íþrót­ta­karl bæj­ar­ins árið 2024.
Við sama til­efni var karlalið Aft­ur­eld­ing­ar í knatt­spyrnu valið af­rekslið Mos­fells­bæj­ar, Magnús Már Ein­ars­son þjálf­ari liðsins val­inn þjálf­ari árs­ins og móðir hans Hanna Sím­on­ar­dótt­ir val­in sjálf­boðaliði árs­ins.

Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir kúlu­varp­ari
Árið 2024 varð Erna Sól­ey fyrsta ís­lenska kon­an til að keppa í kúlu­varpi á Ólymp­íu­leik­um, þegar hún tók þátt í leik­un­um í Par­ís. Þar kastaði hún lengst 17,39 metra og endaði í 20. sæti af 31 kepp­anda.
Erna Sól­ey setti Íslands­met í kúlu­varpi kvenna sum­arið 2024 þegar hún kastaði 17,91 metra. Erna á einnig Íslands­metið í kúlu­varpi inn­an­húss. Það setti hún þegar hún kastaði 17,92 metra í fe­brú­ar 2023.
Erna var í des­em­ber val­in frjálsíþrótta­kona árs­ins 2024 af Frjálsíþrótta­sam­bandi Íslands.
Erna hef­ur lýst yfir metnaði sín­um til að vera meðal þeirra bestu í heim­in­um og stefn­ir á að keppa á Ólymp­íu­leik­un­um í Los Ang­eles árið 2028.

Skarp­héðinn Hjalta­son jú­dómaður
Skarp­héðinn hóf að æfa júdó hjá Júd­ó­fé­lagi Reykja­vík­ur ell­efu ára gam­all og er nú, níu árum síðar, orðinn einn besti og öfl­ug­asti jú­dómaður lands­ins. Hann náði mjög góðum ár­angri á ár­inu, varð Íslands­meist­ari bæði í -90 kg flokki karla og opn­um flokki karla.
Skarp­héðinn fékk silf­ur­verðlaun á Norður­landa­meist­ara­mót­inu í Svíþjóð, bæði í karla­flokki og í U-21 árs flokki karla, og á alþjóðlegu móti í Dan­mörku, Copen­hagen Open, vann hann einnig til silf­ur­verðlauna.
Skarp­héðinn var val­inn jú­dómaður árs­ins 2024 af Júd­ó­fé­lagi Reykja­vík­ur. Hann er þekkt­ur fyr­ir mikla vinnu­semi og metnað, sem hef­ur skilað sér í stöðugum fram­förum.

Magnús Már þjálfari ársins
Magnús tók við sem aðalþjálf­ari meistaraflokks karla í knattspyrnu í nóv­em­ber 2019, eft­ir að hafa verið aðstoðarþjálf­ari tvö ár þar á und­an.
Und­ir hans stjórn hef­ur Aft­ur­eld­ing bætt sig ár frá ári og náði í sept­em­ber síðastliðnum sögu­leg­um ár­angri þegar liðið tryggði sér í fyrsta sinn í sögu fé­lags­ins sæti í efstu deild Íslands­móts­ins í knatt­spyrnu karla

Af­rekslið Mos­fells­bæj­ar
Meist­ara­flokk­ur karla í knatt­spyrnu hjá Aftureldingu. Liðið braut blað í sögu fé­lags­ins með því að tryggja sér sæti í efstu deild Íslands­móts­ins í knatt­spyrnu karla í fyrsta skipti í sögu þess.
Aft­ur­eld­ing sigraði Kefla­vík í úr­slita­leik um­spils­ins í sept­em­ber og tryggði sér þar með sæti í Bestu deild­inni fyr­ir árið 2025.
Árang­ur liðsins hef­ur haft já­kvæð áhrif á íþrótta­líf Mos­fells­bæj­ar og hef­ur hvatt bæði ungt fólk og aðra íbúa bæj­ar­ins til að taka þátt í íþrótt­um og styðja við knatt­spyrnuliðið.

Hanna Sím­ sjálf­boðaliði árs­ins
Hanna er mjög mik­il­væg­ur hlekk­ur í því frá­bæra starfi sem unnið er inn­an knatt­spyrnu­deild­arinnar. Deild­in og fé­lagið allt á henni mikið að þakka en hún hefur verið öt­ull sjálf­boðaliði inn­an Ung­menna­fé­lags­ins Aft­ur­eld­ing­ar í næst­um þrjá ára­tugi.
Hanna hef­ur af mik­illi þraut­seigju stjórnað Li­verpool-skól­an­um sem hald­inn er á sumr­in þar sem fleiri en 400 krakk­ar af land­inu öllu koma og æfa und­ir hand­leiðslu þjálf­ara frá Li­verpool.
Hanna á stór­an þátt í sögu­leg­um ár­angri meist­ara­flokks karla í sum­ar með frum­kvæði sínu og elju­semi.