Reykjalundur í 80 ár

Pétur Magnússon

Um þessar mundir fagnar Reykjalundur 80 ára afmæli en það var árið 1945 sem fyrsti sjúklingurinn var formlega innritaður á Reykjalund.
Frá þessum atburði hefur sannarlega mikið vatn runnið til sjávar en saga Reykjalundar er auðvitað samofin sögu endurhæfingar í landinu, Mosfellsbæjar og merkilegri sögu SÍBS, eiganda Reykjalundar.
Reykjalundur hefur lengi verið einn stærsti vinnustaðurinn hér í Mosfellsbæ. Reykjalundur er í dag stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að bættum lífsgæðum, aukinni færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita.
Endurhæfing Reykjalundar er byggð upp samkvæmt alþjóðlegum, klínískum leiðbeiningum. Meðferðin einkennist af þverfaglegri samvinnu fagfólks sem myndar átta sérhæfð teymi, sem starfrækt eru á dagvinnutíma að mestu. Auk þess er þverfagleg legudeild, Miðgarður, opin allan sólarhringinn. Einnig er fjöldi gistirýma í boði fyrir sjúklinga sem þess þurfa vegna aðstæðna sinna.
Markmið endurhæfingar er að endurheimta fyrri getu eða bæta heilsu. Um 110-130 sjúklingar sækja þjónustuna á degi hverjum. Á hverju ári fara um það bil 1.300 manns í gegnum endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn. Auk þess kemur fjöldi sjúklinga í viðtöl á göngudeild á hverju ári.
Afmælisárið verður haldið hátíðlegt með ýmsum hætti. Meðal annars heldur Reykjalundur glæsilega afmælisráðstefnu um endurhæfingu þann 12. febrúar, sem stefnir í að verða fjölsótt.

Gaman er að segja frá því að í tilefni af afmælisárinu er verið að leggja lokahönd á ritun sögu Reykjalundar. Það er Pétur Bjarnason sem hefur haldið utan um söguritunina en honum til halds og trausts hefur verið ritnefnd skipuð þeim Bjarka Bjarnasyni, Birgi D. Sveinssyni og Jónínu Sigurgeirsdóttur auk undirritaðs og Ragnars Ólasonar ljósmyndara. Rósa María Guðmundsdóttir og margir fleiri hafa einnig komið að málum og er sjálfsagt að þakka öllum fyrir aðstoðina og þátttökuna. Bókin mun formlega koma út á haustdögum og verður þá kynnt sérstaklega.
Það er sannarlega ástæða til að óska öllum, sem komið hafa að 80 ára sögu Reykjalundar með einhverjum hætti, hjartanlega til hamingju með tímamótin.

Pétur Magnússon
forstjóri Reykjalundar