Blikastaðalandið

Úrsúla Jünemann

Frekar mikill hiti var í Mosfellingunum sem sóttu upplýsingarfundinn um Blikastaðalandið í Hlégarði þann 13. janúar. Þarna er fyrirhugað að reisa byggð með um og yfir 3.000 íbúum.
Mosfellsbærinn hefur stækkað hratt og nýju hverfin sem hafa bæst við þykja mörgum ekki of aðlaðandi, sér í lagi Helgafellshverfið þar sem húsin standa mjög þétt. Byggð á Blikastöðum stefnir í sama hátt og verður jafnvel þéttari.
Þegar ég flutti í Mosfellsbæinn fyrir 40 árum voru íbúar 3.000 talsins og það sást hvergi íbúðarblokk. Strætósamgöngur voru mjög lélegar og það var algengt að húkka sér far. Við hjónin voru þekkt í bænum fyrir að eiga ekki bíl, fórum ferða okkar gangandi eða hjólandi í öllum veðrum. En þá vorum við ung og spræk og í dúndurformi.
Ég var svo heppin að geta sótt vinnu hér í bænum, en fór reyndar allt að fjórum sinnum á íþróttaæfingar til Reykjavíkur þrátt fyrir að Mosfellsleið gekk svona 5-6 sinnum á dag. Þetta krafðist mjög góðs skipulags og oft komst ég ekki heim á kvöldin nema á puttanum.
Nú erum við hjónin komin á efri ár og bíllinn er orðinn þarfaþing.Við veigrum okkur að fara gangandi eða hjólandi þegar það er hálka eða mikill snjór. Auk þess erum við þakklát fyrir að þurfa ekki bera þungar vörur heim.
Nú leyfi ég mér að spyrja: Hver myndi vilja búa í Blikastaðalandi? Gamalt fólk? Fólk með ungbörn? Ég efast um þetta. Allt fyrirhugað skipulag lítur vel út á teikningunum. En flestum finnst einkabíllinn ómissandi. Auðvitað eigum við Íslendingar að læra að spara bílinn, skipuleggja ferðir okkar, verða meira samferða og nota fæturna, hjólið eða strætó þar sem það á við.
En að planta svona nýju og stóru bæjarhverfi þarna niður þar sem umferðavandinn úr og í Mosfellsbæinn er nú þegar mjög mikill er vanhugsað. Og Borgarlínan ein og sér mun ekki leysa hann.

Úrsúla Jünemann