Samgöngumál
Nú er janúarmánuður liðinn og við finnum að daginn er tekinn að lengja. Í janúar var heilt yfir nokkuð rólegt við fundarborðið í Reykjafelli en þeim mun meira að ræða þar fyrir utan.
Tveir opnir fundir voru haldnir þar sem mikilvæg mál voru til umræðu, annars vegar kynningarfundur um skipulagslýsingu á 1. áfanga Blikastaðalands og hins vegar um Samgöngusáttmálann. Þegar maður fer yfir fundina og samtöl í kringum þá er eitt sem er oftast nefnt og það eru samgöngur. Samgöngur frá Blikastaðahverfinu og út á Vesturlandsveginn og samgöngur til og frá bænum okkar.
Samgöngumálin eru sameiginlegt verkefni
Samgöngumálin eru sameiginlegt verkefni okkar allra. Því skiptir máli að íbúar láti í sér heyra og sýni áhuga með því að mæta á fundi þar sem þessi mál eru til umræðu. Á fundinum um Samgöngusáttmálann hefði til dæmis verið gott að sjá fleiri íbúa. Umræðan var góð og snerist í raun minna um Samgöngusáttmálann sjálfan og meira um samgöngur, því það er það sem liggur á okkur. Til umræðu var ferðatíminn, tafir og hvernig framtíðin gæti litið út.
Atvinnusvæði Mosfellinga
Meginþorri atvinnubærra Mosfellinga sækir vinnu og skóla í öðrum sveitarfélögum. Við sem erum í þeim hópi finnum áþreifanlega fyrir því hve umferðin hefur aukist. Það skiptir orðið máli hvort maður leggi af stað þremur til fimm mínútum fyrr eða seinna. Það sást vel sl. mánudagsmorgun þegar ökumaður á hraðferð keyrði á hægri öxl Vesturlandsvegar alla leið að Korputorgi.
Það er því fullkomlega eðlilegt að íbúar hafi áhyggjur af þessu þrjú þúsund manna hverfi að Blikastöðum og öllum nýju íbúunum sem eiga eftir að bætast í hópinn við Baugshlíðina og fara út á Vesturlandsveginn. Því ekki mun fólk sækja vinnu innan þessa nýja hverfis, í einhverjum mæli.
Hvað getum við gert?
Ég held að við, kjörnir fulltrúar, höfum öll heyrt áhyggjuraddirnar og hlustum á þær. Ef það er eitthvað sem skiptir máli hjá okkur kjörnu fulltrúunum þá er það að standa vörð um hagsmuni Mosfellinga og tala fyrir mikilvægi þess að samgönguuppbygging eigi sér stað samhliða annarri uppbyggingu.
Okkar hlutverk er líka að gera allt sem við getum til að auðvelda samgöngur og koma með hugmyndir. Við getum lagt grunninn að breyttu hugarfari í garð almenningssamgangna eins og við í Vinum Mosfellsbæjar höfum gert, því miður við lítinn hljómgrunn. Það er hægt að óska eftir því við Strætó að leið 15 verði gerð að borgarlínuleið og innanbæjarstrætóar gangi um bæinn. Það kostar ekkert að skrifa bréf og óska eftir því að þetta sé skoðað. Það tekur að lágmarki 1½-2 ár að fá slíka breytingu í gegn.
Um það fjallaði tillaga sem við lögðum fram við gerð fjárhagsáætlunar og var hún felld. Við þurfum líka að vera nokkuð samhljóma í okkar málflutningi, það styrkir málstað sveitarfélagsins. Við getum einnig talað fyrir mikilvægi Sundabrautar og lagt ríka áherslu á það við okkar þingmenn að þeir tali máli okkar.
En fyrst og síðast erum við öll lið sem hefur það sameiginlega markmið að vilja að samgöngurnar gangi hraðar og betur fyrir sig. Það gerum við með því að halda okkar málstað á lofti og vera óhrædd að ræða málin.
Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar