Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2025
Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2025. Áætlunin er vel unnin af starfsfólki Mosfellsbæjar og framsetning á gögnum skýr og vel sett fram.
Það er margt gott í áætluninni, og í mörgum tilfellum er ágæt samstaða í bæjarstjórn um hvaða verkefni eigi að setja í vinnslu í okkar góða bæjarfélagi.
Lögbundin þjónusta og kostnaður við hana hefur aukist jafn og þétt undanfarin ár og sú þróun heldur áfram og er það áskorun í rekstri sveitarfélaga. Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn benda annað árið í röð við gerð fjárhagsáætlunar á að það eru gul og jafnvel rauð blikkandi ljós í fjármálum bæjarins sem þarf að gefa gaum og bregðast við að okkar mati.
Aukin lántaka og hækkun á sköttum og álögum
Það sem einkennir fjárhagsáætlun ársins 2025 er stór og víðtæk framkvæmdaáætlun og miklar fjárfestingar sem kalla á háar lántökur sem hækka skuldahlutfall sveitarfélagsins enn meira í efnahagsumhverfi sem er mjög óhagstætt.
Á næsta ári mun Mosfellsbær taka hæsta lán sem bærinn hefur tekið á einu ári og er það mjög dýrt fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ í því vaxtaumhverfi sem nú ríkir.
Þetta gerist á sama tíma og tekjur bæjarins hafa aukist mikið m.a. vegna hækkunar útsvars og skatta og álaga á íbúa, auk þess sem tekjur af lóðasölu og byggingarréttargjöldum hafa numið 1.700 milljónum frá því nýr meirihluti tók við rekstri bæjarins.
Auk aukinnar lántöku til að mæta auknum útgjöldum munu skattar og álögur á bæjarbúa halda áfram að hækka.
Má þar nefna að skattprósenta fasteignaskatta mun hækka í 0,20 % og er sú prósenta mun hærri en þekkist í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sem hafa verið að lækka sína fasteignaskattsprósentu fyrir utan Reykjavík. Þessi hækkun skattprósentu kemur ofan í miklar hækkanir á fasteignasköttum undanfarin tvö ár sem allir fasteignaeigendur og rekstraraðilar fyrirtækja í Mosfellsbæ hafa rækilega fundið fyrir.
Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs fyrir árið 2025 samkvæmt áætlun er mínus 41 milljón þegar búið er að taka frá einskiptistekjur sem koma frá lóðasölu og byggingaréttargjöldum. Það er ekki ásættanleg niðurstaða og sýnir að rekstur bæjarins er ósjálbær.
Endurskoða þarf áætlanir og minka þarf kostnað
Fulltrúum meirihlutans er tíðrætt um erfitt efnahagsástand og að fjárhagsstaða Mosfellsbæjar sé erfið, en þrátt fyrir það eru engar tillögur í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2025 um aðhald eða sparnað. Til að allrar sanngirni sé gætt þá skal tekið fram að það er erfitt að hægja á eða hætta við framkvæmdir sem eru í miðjum klíðum, svo sem byggingu leikskóla og íþróttahúss í Helgafelli, framkvæmdir við uppbyggingu við íþróttasvæðið að Varmá o.fl. framkvæmdir.
Það er samt nauðsynlegt miðað við að vaxtastig og verðbólga hafa verið mun hærri og langvinnari en gert var ráð fyrir og staða og þróun efnahagsmála er enn mjög óljós að skoða gaumgæfilega fyrri áætlanir og rýna hvar hægt er að draga saman og minka útgjöld.
Það er að okkar mati fulltrúa D-lista í bæjarstjórn ekki hægt keyra áfram fyrri áætlanir m.a. kostnaðarsamar breytingar í stjórnkerfi bæjarins sem eru meðan aðstæður í efnhagsmálum eru eins erfiðar og raun ber vitni.
Það þarf að sýna mikla ábyrgð í fjármálastjórnun og rekstri, forgangsraða rétt og gera raunhæfar áætlanir bæði á tekju- og útgjaldahliðum í þessu umhverfi.
Í rekstri ört stækkandi sveitarfélags eins og Mosfellbæjar, þarf öflugan samheldinn og ábyrgan meirihluta, sem er vel inni í málum og þorir að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir og standa með þeim.
Bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munu áfram styðja tillögur meirihlutans sem við teljum skynsamlegar og góðar, og halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri og leggja þannig okkar af mörkum til að áfram verði best að búa í Mosfellbæ.
Ég sendi Mosfellingum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Ásgeir Sveinsson
Bæjarfulltrúi
Oddviti D-lista