Tillögur til fjárhagsáætlanagerðar
Í lok hvers árs þarf að horfa fram á veginn og leggja drög að því hvernig verja skuli því fjármagni sem skilar sér til sveitarfélagsins í formi útsvars og gjalda.
Vinir Mosfellsbæjar hafa lagt fram fimm tillögur til fjárhagsáætlanagerðar.
Námssjóður
Sú fyrsta er tillaga að stofnun námssjóðs fyrir starfsfólk sveitarfélagsins. Hugmyndin vaknaði í umræðu um fólkið okkar sem sinnir lægst launuðustu störfunum og er með litla menntun að baki.
Hugsunin er sú að sjóðurinn verði hvatning fyrir starfsfólk til að sækja sér menntun og jafnvel geri fólki það kleift.
Fjármálaráðgjafar fyrir skólastjórnendur
Grunnskólar bæjarins eiga það sameiginlegt að vera fjölmennir og stórir. Auknar kröfur eru á hendur skólastjórnenda um að vera faglegir leiðtogar og reka óaðfinnanlega skóla. Þeir eiga að vera sýnilegir, tengjast starfsmönnum, nemendum, foreldrum og samfélaginu og innleiða nýjar stefnur. Til að okkar stjórnendur geti staðið undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra þurfum við að skapa þeim svigrúm til þess.
Góður stuðningur af hálfu sveitarfélags við skólastjórnendur sína er að veita þeim stuðning í fjármálum. Að þeir hafi fjármálaráðgjafa sem getur tekið saman upplýsingar um stöðu fjármála, hver staðan á stöðuhlutföllum í skólanum sé og geti veitt ráðleggingu er gríðarlega mikilvægt.
Með því aukast líkur og skilningur á að skóli standist fjárveitingar eða hljóti aukafjárheimildir eftir því sem nauðsynlegt er. Eins fæst yfirsýn yfir það hvernig fjármunum er varið sem getur aukið skilvirkni og er í takti við nýlega samþykkt um úttekt á upplýsingatæknimálum.
Almenningssamgöngur
Vinir Mosfellsbæjar leggja til að Mosfellsbær taki forystu í að efla almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost og legga til þrjár tillögur þar að lútandi.
Tillaga 1: Lagt er til að leið 15 verði gerð að borgarlínuhraðstrætó til að stytta eins og kostur er ferðatíma milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur.
Tillaga 2: Lagt er til að settur verður á laggirnar innanbæjarstrætó sem keyrir á 15 mínútna fresti eftir leiðum sem tengja hverfi Mosfellsbæjar og koma þannig í staðinn fyrir þann hluta af núverandi leið 15 sem tillaga 1 tekur til, sem og núverandi leið 7. Innanbæjarstrætó fæðir jafnframt hraðstrætó númer 15 farþegum sem halda áfram út fyrir bæjarmörkin.
Tillaga 3: Lagt er til að frítt verði í strætó fyrir börn í 7.-10. bekki grunnskóla bæjarins (12-16 ára) sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu. Eins er lagt til að Mosfellsbær hvetji jafnframt eldri ungmenni til notkunar almenningssamgangna með því að tryggja 50% niðurgreiðslu á Nemakorti strætó til 18 ára aldurs.
Þessar tillögur eru lagðar fram í ljósi þess að langt er í að borgarlínan komi í bæinn. Breytingar á rótgrónum venjum og hugarfari taka langan tíma og því ekki til neins að bíða ef tryggja á að þær gríðarlegu fjárfestingar sem borgarlínan kallar á skili fullum ávinningi þegar þeim lýkur.
Við förum úr því að reka lestina í það að draga vagninn og bjóða upp á samtalið um breytta tíma.
Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar