Hverjum treystið þið?
Á laugardaginn er komið að kosningum til Alþingis. Þá kemur í ljós hverjum þjóðin treystir til þess að leiða íslenskt samfélag inn í framtíðina.
Við í Viðreisn höfum verið í samtali við kjósendur um allt land þar sem við höfum lagt okkur fram um að hlusta á hvað það er sem brennur á fólki.
Þar kemur skýrt í ljós að fólk er orðið langþreytt á því að kerfin okkar eru brotin, margir eiga erfitt með að ná endum saman, matarkarfan hækkar og hækkar, ungt fólk sér fyrir sér betri framtíð annars staðar en á Íslandi, kennarar eru langþreyttir á erfiðri stöðu, fólk kemst ekki í sálfræðiþjónustu því það hefur ekki efni á því og börnunum okkar líður verr.
Þessu viljum við breyta.
Mosfellingar fyrir Mosfellinga
Rödd Mosfellinga er sterk á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Listinn er skipaður fimm Mosfellingum sem búa hér og tveimur til viðbótar sem ólust upp í Mosfellsbæ.
Valdimar Birgisson er í 5. sæti, Ester Halldórsdóttir er í 6. sæti, Elín Anna Gísladóttir er í 8. sæti, Tamar Klara Lipka Þormarsdóttir er í 10. sæti, Helgi Pálsson er í 17. sæti, Guðrún Þórarinsdóttir er í 26. sæti og Lovísa Jónsdóttir er í 28. sæti.
Kjósum framtíðina
Munum það að kosningar eru tækifæri okkar sem þjóðar að hafa áhrif á samfélagið okkar og móta það til framtíðar. Við í Viðreisn höfum skýra sýn á hvaða forgangsmál skipta máli.
Hér þarf að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við þurfum að styrkja og endurskipuleggja heilbrigðiskerfið svo að fólk fái þá aðstoð sem það þarf en hangi ekki á biðlistum svo árum skipti – þá sérstaklega börnin okkar. Og við þurfum að búa við frelsi þar sem við fáum, hvert og eitt okkar, að vaxa og dafna og leggja okkar til samfélagsins.
Því bið ég ykkur kæru Mosfellingar að hafa okkur í Viðreisn í huga þegar þið gangið inn í kjörklefann. Setjum x við C og kjósum þá sem þora að breyta því sem ekki þjónar sínum tilgangi lengur.
Elín Anna Gísladóttir