Nýtt upphaf með Samfylkingunni
Við kjósum til Alþingis á laugardaginn 30. nóvember. Kosningar, sem boðað var til þegar stjórnarflokkarnir þrír sprungu endanlega á limminu eftir sjö ár af brokkgengu samstarfi.
Á laugardaginn gefst kjósendum langþráð tækifæri til að stokka upp í stjórnmálunum. Það skiptir máli fyrir framtíð Íslands að nýta það vel.
Undir forystu Kristrúnar Frostadóttur hefur Samfylkingin kynnt þrjú veigamikil útspil í kosningabaráttunni. Þar eru stefnumál og markmið sem við höfum sett okkur í þéttu samráði við fólkið í landinu.
Við lofum ekki töfralausnum og erum alveg hreinskilin með að við þurfum tvö kjörtímabil til að marka Íslandi nýja og betri framtíð. Þá framtíð þarf að marka í ríkisstjórn sem Samfylkingin leiðir.
Örugg skref
Samfylkingin ætlar að setja heilbrigðisþjónustu og málefni aldraðra í hæsta forgang með því að taka örugg skref að betra og öruggara aðgengi að heilbrigðiskerfinu og vinna upp halann sem myndast hefur í uppbyggingu hjúkrunarrýma. Það hefur reynst kostnaðarsöm vanræksla.
Hver einasti íbúi hér á landi þarf að fá fastan heimilislækni. Það eitt eykur öryggi og lækkar kostnað í heilbrigðiskerfinu. Nú hefur aðeins helmingur landsmanna
aðgang að föstum heimilislækni. Þetta viljum við laga á tveim kjörtímabilum.
Krafa um árangur
Samfylkingin gerir kröfu um árangur í samgöngu- og atvinnumálum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um innviðskuldina sem bíður okkar í samgöngum um allt land.
Mesta fólksfjölgun í Evrópu og rúmlega tvær milljónir ferðamanna á ári hafa reynt á samgöngukerfið svo um munar. Fjárfesting í samgöngum þarf að hækka um helming og nema 1% af vergri landsframleiðslu.
Við viljum líka ljúka uppbyggingu betri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þó fyrr hefði verið.
Umbætur á húsnæðismarkaði
Samfylkingin vill ráðast í bráðaaðgerðir svo að stærri hluti íbúðarhúsnæðis nýtist sem heimili fólks fremur en fjárfestingarvara hinna efnameiri.
Við viljum ná stjórn á Airbnb, herða eftirlit og takmarka heimagistingu við lögheimili eða sumarbústað. En 90 daga reglan verður að sjálfsögðu áfram í gildi. Við leggjum til að gististarfsemi í atvinnuskyni verði aðeins í samþykktu atvinnuhúsnæði en ekki íbúðarhúsnæði, óháð því hvenær rekstrarleyfi var gefið út.
Samfylkingin stendur með ungu fólki og vinnandi fjölskyldum og auðveldar þeim að koma sér þaki yfir höfuðið.
Til grundvallar allri okkar pólitík liggur jafnaðarstefnan og hugsjónir hennar um algild mannréttindi og frelsi einstaklingins í samfélagi þar sem öll njóta velferðar og öryggis án tillits til stöðu. Í samfélagi þar sem atvinnugreinar blómstra í heilbrigðri samkeppni og gætt er að fjölbreyttri nýsköpun og framþróun okkur öllum til heilla.
Kjósum Samfylkinguna fyrir nýtt upphaf á Íslandi.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Alma D. Möller
eru í framboði fyrir Samfylkinguna í Suðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum 30. nóvember.