Vinna gegn afleið­ingum beinþynningar

halldora

Beinvernd eru landssamtök áhugafólks um beinþynningu, jafnt leikra sem lærðra. Samtökin voru stofnuð 12. mars 1997 í Reykjavík og var aðalhvatamaður um stofnun þeirra Ólafur Ólafsson þáverandi landlækir.
Síðastliðin átta ár hefur Beinvernd haft skrifstofu að Háholti 14, sem er vel staðsett í heilsubænum Mosfellsbæ. Starfsmaður Beinverndar, Halldóra Björnsdóttir, heimsækir gjarnan vinnustaði, félagasamtök aldraðra og önnur samtök með fræðsluerindi. Varmárskóli, Lágafellsskóli, Lionsklúbbinn Úa, Reykjalundur og félagsstarf aldraðra hér í bæ hafa öll verið heimsótt á undanförnum árum.

Beinagrindin lifandi vefur
En hvers vegna að stofna félag eða landssamtök um beinþynningu?
„Beinagrindin er lifandi vefur sem alla ævi er brotinn niður og um leið endur­byggður,“ segir Halldóra. „Heilbrigði beinanna er háð margvíslegum þáttum, sem tengjast fæðu, hreyfingu og aldri. Beinþynning verður til, þegar kalk í beinum minnkar og styrkur þeirra þar með. Hin harða og þétta skurn, sem jafnan umlykur beinin, þynnist og frauðbeinið sem fyllir hol þeirra gisnar. Þau verða stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak. Þessar breytingar eru því miður einkennalausar og uppgötvast oft ekki fyrr en við beinbrot.“

Fræðsla skipar stóran sess
Beinvernd hefur sett sér fjögur markmið til að vinna gegn afleiðingum beinþynningar, þar sem vitundarvakning og fræðsla skipa stóran sess. Markmið félagsins eru:
1. Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli
2. Að miðla hverju sinni nýjustu þekkingu á þessum vanda og vörnum gegn honum til almennings og heilbrigðisstétta.
3. Að stuðla að auknum rannsóknum á eðli, orsökum og afleiðingum beinþynningar og forvörnum gegn henni.
4. Að eiga samskipti við erlend félög, sem starfa á svipuðum grundvelli.
Beinvernd hefur gefið út fjölmarga fræðslubæklinga og fréttabréf, og heldur úti heimasíðunni www.beinvernd.is og síðu á Facebook. Á þessum síðum er að finna mikinn fróðleik um beinþynningu, orsakir, áhættuþætti, greiningu og meðferð.