„Ólýsanleg tilfinning“

Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar.

Afturelding hafði betur gegn Keflavík í úrslitaleik Lengjudeildar-umspils um sæti í Bestu deild karla 2025 á Laugardalsvelli. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Aftureldingar sem karlalið félagsins kemst í efstu deild Íslandsmótsins.
Eina mark leiksins kom á 78. mínútu og var það Sigurpáll Melberg Pálsson sem skoraði þegar hann fylgdi eftir skoti sem var varið frá Arnóri Gauta Ragnarssyni, sem hafði komið inn á sem varamaður mínútu áður.
Þess má til gamans geta að Knattspyrnudeild Aftureldingar fagnar einmitt um þessar mundir 50 ára afmæli.
Mosfellingar fjölmenntu á völlinn og létu vel í sér heyra.

Dagur sem fer í sögubækurnar
„Það var ólýsanleg tilfinning að sjá Aftureldingu taka skrefið upp í efstu deild eftir mikla vinnu og uppgang undanfarin ár,“ segir Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar.
„Það eru ótrúlega margir aðilar sem eiga þátt í því að liðið náði þessu markmiði. Núverandi og fyrrverandi leikmenn, þjálfarateymi, starfslið, stjórnarmenn, sjálfboðaliðar, styrktaraðilar og síðast en ekki síst stuðningsmenn.
Laugardagurinn 28. september 2024 fer í sögubækurnar hjá Aftureldingu og núna þurfum við að gefa ennþá meira í. Við viljum meira og núna bíður gríðarlega spennandi verkefni í Bestu deildinni þar sem við mætum bestu liðum landsins. Við munum reyna að auka fagmennskuna ennþá meira hjá okkur og efla umgjörðina.
Ef sjálfboðaliðar eða styrktaraðilar hafa áhuga á að slást í för með okkur í þessu verkefni þá má endilega hafa samband við mig eða Gísla Elvar Halldórsson formann meistaraflokksráðs.“

Styrkjum liðið á skynsamlegan hátt
„Það er mikill munur á umgjörð og fjármagni liða í Bestu deildinni og Lengjudeildinni og við þurfum að gera allt sem við getum til að hafa okkar starf eins öflugt og mögulegt er.
Barna- og unglingastarf Aftureldingar hefur skilað frábærum leikmönnum í gegnum tíðina og í öðrum félögum eru öflugir Mosfellingar. Við munum styrkja liðið á skynsamlegan hátt og vonandi koma einhverjir uppaldir Mosfellingar aftur heim og taka slaginn með okkur næsta sumar.“

Umgjörðin hefur verið til fyrirmyndar
„Undanfarin ár hefur myndast gríðarlega skemmtileg stemning í kringum liðið og við viljum halda því áfram í Bestu deildinni. Viðburðir og umgjörðin á heimaleikjum hafa verið til fyrirmyndar hjá öflugum sjálfboðaliðum.
Nýr gervigrasvöllur kemur á Varmársvæðið á næsta ári og vonandi sjáum við glæsilega stúku rísa við þann völl sem allra fyrst svo hægt verði að spila heimaleiki á nýja vellinum. Þá mun um leið áhorfenda- og búningsaðstaða verða eins og þekkist hjá öðrum félögum í Bestu deildinni.
Það eru mjög spennandi tímar fram undan og það er mjög gaman að sjá meðbyrinn og stuðninginn hjá fólki í Mosfellsbæ. Við munum undirbúa okkur mjög vel í vetur og allir í kringum liðið eru spenntir að takast á við Bestu deildina næsta sumar. Sjáumst á vellinum. Áfram Afturelding!“ segir Magnús Már að lokum.