Við getum gert betur

Aldís Stefánsdóttir

Sú staðreynd að börnin okkar séu ekki örugg – hvorki í sínu nærumhverfi eða á opinberum viðburðum er hliðrun á þeim raunveruleika sem við höfum búið við í íslensku samfélagi.
Síðustu vikur hefur verið áþreifanleg sorg í samfélaginu og hluttekning með þeim sem eiga um sárt að binda vegna dauðsfalls ungrar stúlku sem varð fyrir hnífstunguárás á Menningarnótt í Reykjavík. Ofbeldið í samfélaginu er að aukast og við verðum að bregðast við.
Við sjáum vísbendingar í talsvert auknum fjölda tilkynninga til barnaverndar um ofbeldi og notkun vímuefna. Niðurstöður kannana benda einnig til þess að börnum og ungmennum líði ekki vel og þau leita í auknum mæli eftir óheilbrigðum lausnum við þeirri vanlíðan.
Í kjölfar gríðarlega vel heppnaðrar bæjarhátíðar – þrátt fyrir leiðinlegt veður og skugga ofbeldis – er mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hvort það þurfi að gera breytingar. Mikið hefur borið á unglingadrykkju og vanda sem því tengist á allra síðustu árum. Í túninu heima er ætlað að gefa bæjarbúum tækifæri til að njóta þess besta sem bæjarfélagið okkar býður upp á. Menningu, náttúru og ekki síst samveru vina, nágranna og fjölskyldna. Hátíðinni er ekki ætlað að skapa kjöraðstæður fyrir eftirlitslausa unglingadrykkju og ofbeldishegðun.
Aukum áherslu á forvarnir
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur veitt þessu athygli og leggur áherslu á að farið verði í markvissar forvarnaraðgerðir með það að markmiði að koma í veg fyrir aukna neyslu áfengis og vímefna í hópi barna og unglinga. Einnig að mæta umræðunni um ofbeldi og vopnaburð með fræðslu og þátttöku alls samfélagsins.

Mosfellsbær er gott samfélag og við viljum halda áfram að þróa það til framtíðar. Kjörnir fulltrúar og starfsfólk fræðslu- og velferðarsviðs, starfsfólk skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvarinnar Bólsins ásamt íþróttaþjálfurum og öðrum hópum sem tengjast daglegri umgjörð barna hafa svo sannarlega gert sitt besta til að skapa öruggt umhverfi fyrir börnin okkar og munu halda því áfram. En nú þarf meira til. Það skiptir allt máli. Orðræðan í samfélaginu skiptir máli. Hvernig við tjáum okkur við hvert annað og um hvert annað. Að við innleiðum farsæld í okkar samfélag með þeim hætti að ekkert barn verði skilið eftir. Við höfum alla burði til þess. Við erum auðugt samfélag af svo mörgu og sérstaklega af mannauði.
Við getum gert betur og við verðum að gera betur.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ