Ekki vera píslarvottur

Dögg Harðardóttir Fossberg

Þeir sem hafa verið í leiðtogastöðu eða stjórnunarstarfi um árabil vita að stundum koma erfið mál inn á borð leiðtogans sem honum ber að taka á.
Það getur verið erfitt að taka á málum og taka óvinsælar ákvarðanir en það er engu að síður eitt af því sem leiðtogi er ráðinn til. Leiðtogar verða að þola að það sé talað um þá og að það sé ekki alltaf talað vel um þá. Leiðtogar geta líka þurft að hlusta á gagnrýni, stundum óverðskuldaða eða reiðilestur starfsmanna sem illa liggur á.
Þegar leiðtoginn er vel upp lagður gengur oftast vel að tækla þannig mál. En þar sem leiðtoginn er manneskja þá getur hann verið illa sofinn eða illa fyrir kallaður af öðrum ástæðum og umburðarlyndið og þolinmæðin af skornum skammti. Stundum er auðvelt að leiða særandi hluti hjá sér og stundum ekki.
En það sem skiptir öllu máli er að leiðtoginn fari ekki í hlutverk píslarvotts. Þó svo að starfsfólk eða samferðafólk geti komið illa fram þá skilar það engum árangri að erfa hlutina fyrir lífstíð og rifja endalaust upp hvað aðrir gerðu manni. Á einhverjum tímapunkti þarf maður að ákveða að leggja hlutina að baki sér og halda áfram. Stundum er sagt að það að fyrirgefa ekki sé eins og að drekka eitur og reikna með að einhver annar deyi. Eða að leyfa fólki að búa leigulaust í kollinum á sér.
Það þekkja það sennilega flestir hvernig hægt er að tala við sjálfan sig og rifja upp hversu illa hefur verið komið fram við mann, hversu rætið fólk getur verið og hversu bágt maður eigi. Þetta er mannlegt og kannski í lagi í örfáa daga ef það hjálpar, á meðan maður er að komast yfir óþægindin. En séu liðnir margir mánuðir eða ár frá óþægilegu atviki og leiðtoginn er fastur í því sem aðrir gerðu honum þá er skynsamlegt að taka meðvitaða ákvörðun um að hætta að vera píslarvottur.
Það getur vel verið að fólk hafi komið illa fram við mann. Það getur vel verið að maður hafi verið særður og fengið óverðskuldaða eða verðskuldaða en óvægna og særandi gagnrýni en það er banvænt að hafa hugann endalaust við fortíðina. Taktu þér taki þegar þessar hugsanir skjóta upp kollinum og taktu ákvörðun um að láta þetta vera hluta af fortíðinni sem gerir þig að þeirri manneskju sem þú ert, en hindrar þig ekki í að halda áfram.
Stundum er fólk að rifja upp löngu liðna, óþægilega atburði sem varða fólk sem það er löngu hætt að hitta og ávöxturinn er fyrst og fremst sorg og vanlíðan. Það er til fólk sem hefur aldrei fyrirgefið áratugagömul atvik og valið að vera píslarvottar allt lífið af því að einhver hafði einhvern tímann gert þeim eitthvað. Ekki vera þannig manneskja. Veldu að fyrirgefa. Veldu að vera ekki píslarvottur. Veldu að gera óþægilegu minningarnar að fortíð en ekki samferðamanni og haltu áfram með bros á vör!

Dögg Harðardóttir Fossberg
Markþjálfi hjá sigur.is