Mosfellsbær leitar að samstarfsaðilum fyrir þróunarverkefni

Bæjarráð hefur samþykkt tillögu um að skoða áhuga mögulegra samstarfsaðila á tveimur þróunarverkefnum á Varmársvæðinu.
Annars vegar þjónustu- og aðkomubyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá og hins vegar þróun og uppbyggingu á lóð við Háholt 5. Markmiðið er að veita áhugasömum og hæfum aðilum tækifæri til að koma fram með hugmyndir að þróun og uppbyggingu á svæðinu. Opnað verður fyrir umsóknir fyrir bæði verkefnin í byrjun september.

Spennandi vegferð
„Við erum á spennandi vegferð í Mosfellsbæ með uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá og frekari nýtingu aðliggjandi svæða. Þessi þróunarverkefni eru liður í þeirri vinnu,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.
„Þegar við fórum í þarfagreiningu á íþróttahúsinu og nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu þá kom í ljós þörf á stærra rými og umfangsmeiri breytingum en ráð var fyrir gert. Þess vegna viljum við freista þess að fá áhugasama aðila til samstarfs með samnýtingu á þjónustu- og aðkomubyggingunni.
Við viljum líka skoða hvaða tækifæri eru í nýtingu lóðarinnar við Háholt sem liggur nálægt Varmársvæðinu. Þetta ferli skuldbindur ekki Mosfellsbæ en gefur okkur tækifæri til að kanna áhuga aðila á markaði og félagasamtaka áður en næstu skref varðandi uppbyggingu verða tekin.“

Upplýsingaöflun um hugmyndir
Eingöngu er um markaðskönnun að ræða á grundvelli 45. gr. laga um opinber innkaup, þ.e. upplýsingaöflun um hugmyndir áhugasamra aðila á markaði hvað varðar nýtingu á svæðinu og hvernig hún fellur að þörfum og væntingum Mosfellsbæjar og Aftureldingar.
Ekki er tryggt að markaðskönnun leiði til útboðs og þátttaka í henni ekki talin forsenda þátttöku í síðara innkaupaferli/útboði.


Þjónustu- og aðkomubygging íþróttamiðstöðvarinnar að Varmá:
Leitað er að hæfum og áhugasömum aðilum til samstarfs um þróun, byggingu og/eða nýtingu á uppbyggingu á nýrri þjónustu- og aðkomubyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá.
Þjónustu- og aðkomubygging verður nýtt af Mosfellsbæ og Aftureldingu. Byggingin getur að hámarki orðið 3.000 m2, en ný þarfagreining Mosfellsbæjar og Aftureldingar gerir ráð fyrir allt að 1.700 m2 aðstöðu.
Starfsemi sem kæmi til greina í þjónustu- og aðkomubyggingu er íþrótta- og heilsutengd starfsemi á borð við líkamsrækt, sjúkraþjálfun, verslun, veitingarekstur og skrifstofuaðstöðu.


Háholt 5
Leitað er að hæfum og áhugasömum aðilum til samstarfs um þróun og uppbyggingu á lóð að Háholti 5. Markmið með uppbyggingu á þróunarsvæðinu að Háholti 5 er að styðja við uppbyggingu Varmársvæðisins til lengri tíma, tengja við miðbæjarsvæðið og styrkja starfsemina á svæðinu.
Um er að ræða nýja 4.000 m2 lóð sem er á skipulögðu miðsvæði við Vesturlandsveg með aðkomu frá Háholti.
Fjölbreytt tækifæri til uppbyggingar í miðbæ Mosfellsbæjar á sviði verslunar, þjónustu, afþreyingar, hótels eða með öðrum þeim hætti sem nýst getur íbúum og gestum sveitarfélagsins. Lóðin er í nálægð við menningar- og samkomuhús Hlégarðs auk íþróttasvæðis að Varmá.