Bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram um helgina

Bæjarhátíðin vinsæla Í túninu heima verður haldin 29. ágúst til 1. september. Dagskráin er glæsileg að vanda og teygir sig vítt og breitt, upp á fellin og inn í Mosfellsdal.
Formleg setning fer fram með hátíðardagskrá í Hlégarði á fimmtudegi. Við það tækifæri fer fram útnefning bæjarlistamanns og veittar umhverfisviðurkenningar.
Þekktir dagskrárliðir verða í boði eins og Ullarpartí og markaðsstemning í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýningin á Tungubökkum, kjúklingafestival, götugrill og Pallaball.
Hápunktur hátíðarinnar er á laugardagskvöld þegar stórtónleikar fara fram á Miðbæjartorgi þar sem bæði landsþekktar hljómsveitir og heimafólk stígur á svið. Breyting verður í ár en flugeldasýning sem björgunarsveitin Kyndill hefur staðið fyrir að loknum tónleikum verður ekki á dagskrá. Erfiðara hefur reynst að finna heppilega staðsetningu síðustu ár vegna uppbyggingar í miðbænum sem byrgir sýn frá torginu. Þá hefur umræða um flugelda farið vaxandi síðustu ár með tilliti til umhverfis, manna og dýra.

Allir taka þátt í bæjarhátíðinni
Íbúar, félagasamtök og fyritæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Mosfellingar skreyta hús sín og garða í hverfislitunum. Sérstaða hátíðarinnar felst í heimboðum Mosfellinga í garða sína og víða verður boðið upp á metnaðarfulla dagskrá.
Gljúfrasteinn opnar dyrnar upp á gátt en safnið fagnar 20 ára afmæli í ár og því verður frítt inn bæði á laugardag og sunnudag.
Skrúðanga leggur af stað frá Miðbæjartorgi kl. 20:30 á föstudag með hestamannafélagið Hörð í broddi fylkingar. Þaðan liggur leiðin í Álafosskvos þar sem Mosfellingar sameinast í brekkusöng.
Áður en haldið er á stórtónleikana á laugardag safnast íbúar Mosfellsbæjar í götugrill í vel skreyttum götum bæjarins.

Heilsueflandi bæjarhátíð
Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag og þónokkrir íþróttatengdir viðburðir eru á dagskrá hátíðarinnar. Tindahlaup Mosfellsbæjar fagnar í ár 15 ára afmæli, en hlaupið er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Björgunarsveitarinnar Kyndils og blakdeildar Aftureldingar. Tindahlaupið er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins.
Fellahringurinn fer fram á fimmtudagskvöldið en um er að ræða fjallahjólamót þar sem hjólað er um stíga innan Mosfellsbæjar. Tvær vegalengdir eru í boði, 15 km og 30 km. Á laugardag verður hjólagarðurinn Flækjan opnaður í Ævintýragarðinum, en Flækjan er stórskemmtileg torfæruhjólabraut.

Hundahlaup í Mosó í fyrsta sinn
Nýjung í ár er Hundahlaupið, en þar gefst hundaáhugafólki tækifæri á að sýna sig og sjá aðra. Markmiðið með hlaupinu er að kynna öðruvísi nálgun á útivist með hundum.
Fótboltamót Aftureldingar og Gæðabaksturs fer fram á íþróttasvæðinu á Tungubökkum og knattspyrnuleikir í Lengjudeildinni fara fram á Malbikstöðinni á föstudag og laugardag.
Ævar Aðalsteinsson Mosverji býður í skemmtilega göngu á Reykjaborg þar sem stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar verða kynntar.

Markaðsstemming alla helgina
Í Álafosskvos verður fjölbreyttur útimarkaður að vanda á föstudagskvöld og á laugardegi. Á laugardegi verður jafnframt loppumarkaður í Kjarna, en þar gefst íbúum tækifæri á að selja ýmiss konar góss.
Á sunnudeginum verður sveitastemming í Álafosskvos þar sem bændur selja vörur sínar beint frá býli. Grænmeti í úrvali, rósir, nýjar kartöflur, gúrkur, tómatar og íslensk hollusta verður í boði.

Ýmislegt í boði fyrir börnin
Margt verður um að vera fyrir börnin á bæjarhátíðinni. Blaðrarinn kemur á uppskeruhátíð sumarlesturs bókasafnsins á miðvikudag og kennir lestrarhestum að búa til blöðrudýr og í Lágafellslaug verður líf og fjör á Sundlaugargleði á fimmtudag.
Boðið verður upp á eins manns sirkussýningu og húllafjör við Hlégarð, teymt undir hestum og hoppukastali á Stekkjarflöt og opna húsið á slökkvistöðinni á Skarhólabraut er á sínum stað á sunnudag, en það slær alltaf í gegn.