Erna Sóley á Ólympíuleikana
Mosfellingurinn Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarpari, hefur fengið boð um þátttöku á Ólympíuleikunum í París í sumar en Alþjóðaólympíunefndin staðfesti svo um helgina.
Erna Sóley hefur verið iðin við keppnir síðustu vikur og mánuði og staðið sig afar vel. Hún sigraði meðal annars á Meistaramóti Íslands fyrr í mánuðinum og setti þar að auk Íslandsmet í leiðinni.
Ólympíuleikarnir hefjast í París 26. júlí
Fimm íslenskir kastarar áttu raunhæfa möguleika á því að enda meðal 32 efstu í sinni grein á stigalistanum og fá þar með sæti á Ólympíuleikunum en eftir að lokalistinn var uppfærður þá kom í ljós að ekkert þeirra náði því.
Erna Sóley var þar þó efst Íslendinga í 34. sæti eftir Íslandsmetið sitt um síðustu helgi. Hún var því bara tveimur sætum frá því að vinna sér inn Ólympíusæti.
Erna Sóley hefur ekki áður keppt á Ólympíuleikunum en hún verður fimmti keppandinn sem kemst inn á leikana fyrir Íslands hönd, en þeir hefjast í París í Frakklandi 26. júlí.