Tónlist gefur manni svo mikið
Hulda Jónasdóttir hlaut tónlistarlegt uppeldi frá blautu barnsbeini og hefur tónlistin fylgt henni æ síðan. Á heimili hennar var mikið hlustað á blús, djass og klassíska tónlist og gömlu góðu íslensku lögin voru einnig í hávegum höfð.
Árið 2016 skellti Hulda sér í nám í viðburðastjórnun og stofnaði sitt eigið fyrirtæki í kjölfarið, Gná tónleikar. Nú skipuleggur hún og viðburðastýrir tónleikum og ýmsum öðrum viðburðum af öllum stærðum og gerðum.
Hulda er fædd á Sauðárkróki 1. janúar 1963. Foreldrar hennar eru Erla Gígja Þorvaldsdóttir matráður og tónlistarkona og Jónas Þór Pálsson málarameistari, leiktjaldasmiður, trommari og listmálari en hann lést árið 2016. Þau hjónin settu mikinn svip á menningarlíf Skagfirðinga hér á árum áður.
Hulda á tvö systkini, Björn f. 1953 skipstjóra og Þórdísi f. 1957 húsmóður.
Naut þess að hlusta
„Ég er alin upp á Sauðárkróki, þeim fallega bæ og þar var ákaflega ljúft og gott að alast upp. Ég eignaðist marga góða vini sem enn í dag eru meðal minna bestu vina. Við lékum okkur mikið úti í náttúrunni og brölluðum margt skemmtilegt.
Ég var mjög ung þegar ég byrjaði að hlusta á tónlist, pabbi hlustaði á djass og blús en mamma meira á karlakórana og gamla íslenska tónlist. Saman hlustuðu þau svo á klassíska tónlist þannig að tónlistarvalið hjá þeim var mjög fjölbreytt.
Ég átti gamlan plötuspilara og naut þess að hlusta, var sjö ára þegar ég eignaðist mína fyrstu vínylplötu, plötu með Bessa Bjarnasyni leikara þar sem hann söng vísur Stefáns Jónssonar. Ég var líka aðdáandi Svanhildar Jakobsdóttur og eignaðist margar plötur með henni.“
Ómissandi partur af aðventunni
„Jólastemmingin á Króknum þegar ég var að alast upp var einstök. Aðalgatan var hlaðin skemmtilegum verslunum og það var gaman að ganga á milli þeirra og kaupa jólagjafir.
Ég var svo heppin að afi minn, Þorvaldur Þorvaldsson, rak verslunina Vísi á þessum árum og þar fékk skólastelpan vinnu fyrir jólin. Afi setti alltaf jólasvein út í glugga og var hann ómissandi partur af aðventunni hjá Króksurum.
Ég man sérstaklega stemminguna á Þorláksmessukvöldi þegar opið var til miðnættis, þá komu margir við í búðinni hjá afa. Sumir til að kaupa í jólamatinn, aðrir til að kaupa jólagjafir og sumir til að fá sér hressingu, eina Spur Cola og Smakk súkkulaði áður en haldið var áfram. Eftir lokun var svo farið til Huldu ömmu sem beið með nýsteiktar kleinur og ískalda mjólk.
Ég kem alltaf til með að bera hlýjar og góðar tilfinningar til Sauðárkróks“, segir Hulda og brosir.
Hóf störf í Noregi
„Hulda gekk í barna- og gagnfræðaskólann á Sauðárkróki og átti þar góð ár. Á sumrin þegar hún hafði aldur til þá starfaði hún í sjoppu, fiski og í versluninni hjá afa og svo hjálpaði hún föður sínum með bókhald en hann rak málningarfyrirtæki og var oft og tíðum með marga menn í vinnu.
Eftir útskrift úr gaggó 1980 fór ég til Noregs og hóf störf á SAS hóteli. Mig langaði til að prófa að vinna einhvers staðar annars staðar en á Íslandi og læra nýtt tungumál í leiðinni.
Þegar ég kom heim aftur þá fór ég í Fjölbrautarskólann á Sauðárkróki og útskrifaðist sem stúdent 1984. Ég flutti svo til Reykjavíkur og leigði um tíma með vinkonu minni. Ég hóf nám í snyrtifræði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og útskrifast þaðan árið 1988, í framhaldi starfaði ég svo við förðun í Íslensku óperunni.“
Gaman að skoða nýja staði
Hulda kynntist eiginmanni sínum, Garðari Hreinssyni smiði, á balli með Geirmundi árið 1983. Þau keyptu sér íbúð í Mosfellsbæ en fluttu fljótlega í Mosfellsdalinn þar sem þau byggðu sér hús og þar búa þau enn. Börn þeirra eru Hreindís Ylva f. 1989 skrifstofustjóri, leikari og söngkona og Yngvi Rafn f. 1991 smiður og tónlistarmaður. Barnabörnin eru tvö Arey Hólm og Sóley Herdís.
„Hesta og hundahald hefur alltaf fylgt okkur fjölskyldunni. Okkur finnst einnig mjög gaman að ferðast og skoða nýja staði, við Garðar höfum verið dugleg að fara með börnin alveg frá því þau voru lítil. Eftir að þau fluttu að heiman þá hittumst við alltaf reglulega og borðum saman. Okkur finnst líka mjög gaman að skreppa saman í sumarbústaðaferðir og svo eru leikhús og tónleikaferðir í miklu uppáhaldi fyrir jafnt stóra sem smá fjölskyldumeðlimi.“
Ákvað að stíga skrefinu lengra
Hulda hefur unnið ýmis konar störf í gegnum tíðina, í fiski, verslunarstörf, bókhaldi, bankastörf og er í dag þjónustufulltrúi í Lágafellsskóla. En hvernig skyldi hafa staðið á því að hún fór út í það að halda tónleika? „Þetta byrjaði í rauninni allt með styrktartónleikum, frænka mín og maðurinn hennar voru búin að vera mikið veik og höfðu lítið getað unnið. Mér datt því í hug að hóa saman listafólki og halda tónleika fyrir þau.
Í kjölfarið fylgdu nokkrir styrktartónleikar, þar á meðal fyrir tvo Mosfellinga. Þetta gekk allt svo ljómandi vel og var svo skemmtilegt að ég ákvað að stíga skrefinu lengra. Ég ákvað að skella mér í nám í viðburðastjórnun og stofna fyrirtæki í kringum þetta allt saman, Gná tónlist. Þessi verkefni mín eiga hug minn allan og ég er að skipuleggja og viðburðastýra tónleikum og viðburðum af öllum stærðum og gerðum. Ég hafði reyndar alla mína skólagöngu alltaf verið í árshátíðar-, skemmti- og tónlistarnefndum svo þetta er greinilega eitthvað sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á.“
Þetta vatt svo upp á sig
„Ég hef verið að heiðra gömlu góðu söngvarana okkar, Erlu Þorsteinsdóttur, Helenu Eyjólfsdóttur, Hauk Morthens, Mjöll Hólm og Svanhildi Jakobsdóttur og hafa tónleikarnir farið fram í Hofi á Akureyri og í Salnum í Kópavogi.
Fyrstu alvöru tónleikarnir sem ég skipulagði voru tónleikarnir, Út við himinbláu sundin, þetta áttu bara að vera einir tónleikar en þeir gengu svo vel að þeir urðu fimm talsins. Þetta vatt svo upp á sig og í kjölfarið fylgdu alls kyns tónleikar og viðburðir m.a. sjómannatónleikar og fleiri heiðurstónleikar.“
Hvað er hægt að biðja um meira
„Síðustu tónleikar sem ég hélt voru til heiðurs sjálfum Gunnari Þórðarsyni, Himinn og jörð. Gunnar og fjölskylda hans heiðruðu okkur með nærveru sinni og voru afar sátt, hvað er hægt að biðja um meira?“ segir Hulda og brosir. „Við náum vonandi að endurtaka þessa tónleika því færri komust að en vildu. Fólki finnst gaman að heyra þessa gömlu góðu íslensku lög.
Ég hef líka verið að aðstoða aðra við að skipuleggja alls kyns viðburði og nú síðast Rotarý á Íslandi með klassíska tónleika svo eitthvað sé nefnt. Á teikniborðinu eru svo fleiri tónleikar. Þetta er mjög skemmtilegt og gefandi starf sem ég elska,“ segir Hulda að lokum er við kveðjumst.