Ársreikningur Mosfellsbæjar 2023

Ásgeir Sveinsson

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2023 liggur nú fyrir og sitt sýnist hverjum um niðurstöðuna.

Niðurstaða rekstrarreiknings A-hluta Mosfellsbæjar er jákvæð sem nemur tæpum 230 milljónum, rekstrarniðurstaða A- og B-hluta var árið 2023 tæpar 341 milljónir, sem er þó lakari útkoma en áætlað var og er það þrátt fyrir umtalsvert hærri tekjur en áætlanir gerðu ráð fyrir á árinu.

 

Ástæða jákvæðrar rekstrarniðurstöðu

Ekki er hægt að segja að reksturinn sé sjálfbær þar sem jákvæða rekstrarniðurstaðan er að mestu vegna hækkunar skatta, gjalda og álaga á íbúa en mestu munar þó um einskiptistekjur af sölu byggingarréttar og leiðréttingar á tekjum frá Jöfnunarsjóði m.a. vegna skólamála.

Hagnaður ársins af A-hluta er nær sá sami og hækkun fasteignaskatta á íbúa bæjarins eða um 250 milljónir. Hér er um að ræða hækkanir á fasteignaeigendur og fyrirtæki, það er ekki er um að ræða fjölgun íbúa í bænum heldur hækkanir á fasteignagjöldum.

Jana Katrín Knútsdóttir

Þetta er áhugavert þar sem fram kemur í málefnasamningi meirihlutans að ætlunin sé að lækka fasteignaskatta til að koma til móts við hækkun á fasteignamati.

Tekjur, gjöld og framkvæmdir
Framlag Jöfunarsjóðs hefur aukist síðustu árin, útsvarstekjur hækkuðu á milli áranna 2022 og 2023 um 1,2 milljarð, fasteignskattur um 250 milljónir, framlag Jöfunarsjóðs um rúmar 700 milljónir og aðrar tekjur um 1 milljarð. Er hér m.a. um að ræða hækkun tekna vegna hækkunar útsvarsprósentu og hækkunar á gjaldskrá.
Launakostnaður hækkaði um 1,3 milljarð á milli áranna 2022 og 2023 og er hluti hækkunarinnar vegna stöðugilda sem fylgja Skálatúni og kjarasamningshækkana eða um 1.1 milljarður.  Annar rekstarkostnaður hækkar um 500 milljónir milli áranna.
Áætluð útgjöld vegna varanlegra fastafjármuna voru áætluð 2,1 milljarður en á árinu fóru 1,8 milljarð í framkvæmdir og þar af 158 milljónir umfram áætlaðan kostnað í Kvíslarskóla. Hluti af öðrum áætluðum framkvæmdum var frestað á árinu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rekstrarniðurstaða félagslegra íbúða var neikvæð um 41 milljón á árinu en var jákvæð árið 2022 um 4,6 milljónir. Þá var rekstrarniðurstaða Hlégarðs neikvæð um 4,3 milljónir.

Það sem stendur upp úr í ársreikningnum er m.a. að:
• skattar og álögur á íbúa hafa stórhækkað annað árið í röð
• skuldir aukast milli ára um tvo milljarða
• kostnaður við rekstur bæjarins eykst milli ára um 20%
• launakostnaður jókst um 21% milli ára á meðan launvísitalan hækkaði um 7%
• stöðugildum fjölgar mikið
• tekjur eru mun hærri en áætlun gerði ráð fyrir

Helga Jóhannesdóttir

Rekstrarhorfur næstu ára 

Miðað við að vextir og verðbólga virðast ætla að lækka hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir, er ljóst að fara þarf í hagræðingar og lækkun á útgjöldum. Það veldur því áhyggjum að í áætlun næsta árs má sjá áframhaldandi innleiðingu á nýju skipuriti með fjölgun stöðugilda.
Íbúum í Mosfellsbæ fjölgar áfram og traustur rekstur undanfarinna ára og sterk fjárhagsstaða eiga að gera sveitarfélaginu kleift að veita íbúum áfram framúrskarandi þjónustu sem stöðugt hefur verið að aukast og mun vonandi gera áfram.
Það jákvæða í rekstrarhorfum bæjarins er þó að í fyrsta sinn í mjög mörg ár er Mosfellsbær eigandi að landi sem var úthlutað lóðum á síðasta ári og verður úthlutað áfram á næstu 2-3 árum og mun það tryggja hundruð milljóna í tekjur á hverju ári fyrir sveitarfélagið.
Við bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munum áfram styðja góðar tillögur og hvetja meirihlutann áfram til góðra verka. Við munum einnig  halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri svo áfram verði best að búa í Mosó.
Bæjarfulltrúar D-lista Mosfellsbæ,
Ásgeir Sveinsson
Jana Katrín Knútsdóttir
Rúnar Bragi Guðlaugsson
Helga Jóhannesdóttir