Opna skyndibitastaðinn Dúos
Skyndibitastaðurinn Dúos hefur opnað við hlið Krónunnar í Háholtinu. Tvíburasystkinin Alexía Gerður og Sigdór Sölvi Valgeirsbörn reka staðinn sem opnaði þann 12. janúar.
Systkinin eru alin upp á Kjalarnesi en búa nú í Mosó ásamt fjölskyldum sínum. Þau hafa mikla reynslu af lokum og hraðri afgreiðslu af Hlöllabátum þar sem þau hafa unnið í rúman áratug.
„Það hefur alltaf verið draumurinn að opna okkar eigin stað en hugmyndin var samt komin út af borðinu fyrir þónokkru síðan. Við ætluðum að breyta algjörlega um starfsvettvang. Svo einhvern veginn kom þetta bara upp á einum degi, skyndiákvörðun má segja,“ segir Alexía.
Lokurnar skírðar eftir Mosfellingum
„Þetta fer eiginlega betur af stað en við þorðum að vona og móttökurnar verið frábærar, alveg geggjaðar. Margir sem koma aftur og aftur.“
Á boðstólum eru lokur, hamborgarar, djúpsteiktar pylsur og franskar.
En hvaðan kemur nafnið Dúos?
„Við systkinin erum bara svo gott dúó að það lá beinast við.“
Hvaðan koma nöfnin á lokunum?
„Okkur langaði að hafa smá bæjarstemningu hérna hjá okkur þannig að við fengum lánuð nokkur gælunöfn með góðfúslegu leyfi. Nöfnin á lokunum eru því tengd við nokkra þekkta Mosfellinga. Það eru ekkert endilega allir sem fatta það, en pælingin er skemmtileg.“
Og hver er vinsælasta lokan?
„Það er hörð samkeppni á milli Bulkdórs og Bingó Bjössa þessa dagana. Fleiri nöfn eins og Pulla Jr., Slæ, Jollinn, King og Queen B skjóta þarna líka upp kollinum.“
Hægt að fá sent heim með Wolt
„Stærðin á húsnæðinu hér er fullkomin og staðsetningin góð. Næg bílastæði og líf í húsnæðinu öllu. Hér er hægt að grípa með sér mat eða gleypa í sig á staðnum. Við opnum kl. 10:00 á morgnana og lokum kl. 20:30 á kvöldin. Í hádeginu erum við með hádegistilboð sem hljóðar upp á loku og gos á 1.850 kr.“
Dúos hefur hafið samstarf við Wolt um heimsendingar þannig að nú er hægt að fá matinn sendan beint heim að dyrum.
„Við sjáum hvernig þetta gengur hjá okkur, svo er aldrei að vita nema við förum í frekari útrás í framtíðinni, það kemur bara í ljós. Það er nóg að gera í bili,“ segir Sigdór.