Sundlauginni á Skálatúni lokað vegna slæms ástands
Ákveðið hefur verið að loka sundlauginni á Skálatúni til frambúðar vegna slæms ástands hennar.
Meðal þeirra sem mikið hafa notað laugina er sundkennarinn Snorri Magnússon sem kennt hefur ungbarnasund. Snorri greinir frá því á Facebook að hann sitji uppi með nemendur sem biðu þess að hefja námskeið eftir jólafrí og fullan biðlista.
Þungbær ákvörðun
Nýr eigandi fasteigna á landi Skálatúns tók á dögunum þá þungbæru ákvörðun að starfsemi gæti ekki haldið áfram í sundlauginni á grundvelli öryggissjónarmiða, ekki síst með hliðsjón af því um hvers konar rekstur er að ræða.
Þetta kemur fram hjá Sóleyju Ragnarsdóttur framkvæmdastjóra sjálfseignarstofnunar Skálatúns.
„Milli jóla og nýárs á nýliðnu ári tók nýr eigandi formlega við eignarhaldi fasteigna í landi Skálatúns. Innan þess eignasafns er sundlaug, þar sem kennt hefur verið ungbarnasund til fjölda ára við góðan orðstír. Ætlun nýrra eigenda var alla tíð að sá rekstur myndi halda áfram, enda merk saga ungbarnasunds í lauginni sem mikill vilji var til þess að héldi þar áfram.“
Ástand burðarvirkis ótraust
„Síðla árs bárust upplýsingar um að ástand húsnæðisins sem laugin er í væri ekki eins og best yrði á kosið og var ákveðið að fá fagmenn til þess að skoða húsnæðið og meta ástand þess.
Út úr þeirri skoðun kom sú niðurstaða að ástand húsnæðisins er afar slæmt. Það sem vegur þyngst er að burðarbitar sem halda uppi þaki og veggjum laugarinnar eru mjög fúnir og illa farnir.
Ástand burðarvirkis er þannig ótraust og metið óöruggt.“