Hlégarður kominn heim
Hlégarður á sérstakan stað í hjörtum Mosfellinga á öllum aldri. Hlégarður skipar stóran sess í hugum allra íbúa sem unna menningu og félagslífi ýmiss konar.
Því er sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með öllu því lífi og allri þeirri gleði sem sívaxandi starfsemi í húsinu veitir út í samfélagið. Má í því sambandi nefna sögukvöld sem Menningar- og lýðræðisnefnd hefur staðið fyrir og mjög góður rómur var gerður að.
Félagsstarfið í Mosfellsbæ hefur staðið fyrir opnu húsi alla þriðjudaga þar sem alls kyns afþreying hefur staðið til boða fyrir eldri íbúa bæjarins. Þá hefur Félag aldraðra staðið fyrir reglubundnum menningaratburðum í húsinu. Fjölmennt ungmennaþing í tengslum við innleiðingu verkefnisins barnvænt sveitarfélag var haldið í húsinu og tókst frábærlega.
Við viljum líka nefna tónleika Barnajazz í Mosfellsbæ þar sem mosfellskir jazzkrakkar spiluðu með öðrum innlendum og erlendum jazzgeggjurum á sínu reki. Síðast en ekki síst var haldinn vel heppnaður íbúafundur um sköpun rýmis fyrir menningarstarfsemi í Mosfellsbæ.
Fyrir utan þessa viðburði hafa fjölmargir af svipuðum toga verið haldnir í húsinu sem og fjölbreyttir tónleikar. Er þar skemmst að minnast tónleika Gretu Salóme á aðventunni og vel heppnaðrar tónleikaraðar Gildrunnar síðastliðið haust. Þessi upptalning sýnir dæmi um þann fjölbreytileika sem ríkir í viðburðum í Hlégarði.
Reksturinn
Eitt þeirra áhersluatriða sem meirihluti B, S og C lista settu á oddinn í sínu meirihlutasamstarfi var að efla Hlégarð. Við vildum taka Hlégarð aftur heim en eins og kunnugt er hafði rekstri hússins verið útvistað til einkaaðila um langt árabil.
Nokkurn tíma tók að undirbúa þá ákvörðun enda þurfti að vanda vel til verka. Starfsfólk stjórnsýslu bæjarins skoðaði hvernig rekstri slíkra félagsheimila eða samfélagshúsa væri háttað og best fyrir komið. Niðurstaðan varð að setja rekstur Hlégarðs inn í svokallaðan B-hluta rekstur. Innan B-hluta rekstrar er starfsemi sem ekki er rekin beint af bæjarsjóði heldur innan sérstaks dótturfélags með skilgreint hlutverk og ábyrgð.
Það er alveg ljóst að hér í bænum er þörf fyrir og eftirspurn eftir aðstöðu eins þeirri sem Hlégarður býður. Þess þarf að gæta séstaklega vel að því að sú starfsemi sem einkaaðilar standa fyrir í húsinu, s.s. veislur eða tónleikar, sé ekki niðurgreidd af almannafé.
Einnig þarf að gæta að því að gjaldtakan undirbjóði ekki útleigustarfsemi af svipuðum toga í bænum enda um samkeppnismarkað að ræða. Gjaldskráin þarf því að taka mið af raunkostnaði við rekstur hússins að viðbættum virðisaukaskatti.
Framtíðin
Áfram þarf að halda með endurbætur á Hlégarði og móta þarf stefnu um hvers konar starfsemi eigi að vera á efri hæð hússins. Það stendur upp á kjörna fulltrúa. Sú stefna er nauðsynleg til að endurbætur þjóni væntanlegri starfsemi. Starfsemin í Hlégarði er þróunarverkefni sem tekur breytingum með aukinni reynslu og þekkingu þeirra sem þar koma að.
Við teljum okkur lánsöm að hafa ráðið öflugan og áhugasaman verkefnastjóra fyrir Hlégarð, Hilmar Gunnarsson, sem er öllum hnútum kunnugur í félags- og menningarlífi Mosfellsbæjar og nýtur samstarfs við fleira öflugt fólk innan stjórnsýslu bæjarins. Hlégarður er kominn heim og spennandi þróun fram undan.
Anna Sigríður Guðnadóttir bæjarfulltrúi S lista
Hrafnhildur Gísladóttir, formaður menningar- og lýðræðisnefndar, B lista