Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2024
Meirihluti Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Viðreisnar hefur samþykkt fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2024.
Það vakti mikla athygli að meirihlutinn lagði fram 14 breytingartillögur um eigin fjárhagsáætlun á milli umræðna, sem er einsdæmi og lýsir það kannski best hversu ósamstíga meirihlutinn er og sérkennilegum undirbúningi áætlunarinnar.
Meirihlutinn talar um viðsnúning í rekstri bæjarins, en bent skal á að tekjuafgangur og jákvæð niðurstaða rekstrar á líðandi ári stafar eingöngu af stórhækkuðum sköttum og álögum á bæjarbúa og að auki vegna hærri tekna t.d. af byggingaréttargjöldum og lóðasölu, sem reyndar eru einskiptis tekjur.
Fulltrúum meirihlutans er tíðrætt um erfitt efnahagsástand og að fjárhagsstaða Mosfellsbæjar sé erfið, en þrátt fyrir það eru engar tillögur í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2024 um aðhald eða sparnað. Þvert á móti er stóraukning útgjalda, aukning í starfsmannafjölda og þá sérstaklega í yfirstjórn og í skrifstofukostnaði bæjarins og er sú þróun í takt við nýtt skipurit í anda Reykjavíkurborgar.
Í þeirri óvissu sem nú er í efnahagsmálum, er mikilvægt að sýna ábyrgð í fjármálastjórnun og rekstri, forgangsraða rétt og að gera raunhæfar áætlanir bæði á tekju- og útgjaldahliðum.
Fulltrúa D-lista í bæjarstjórn vildu að í fjárhagsáætlunni yrði tekjuhlið bæjarins endurskoðuð, að lágmarka hækkanir á sköttum og álögum á íbúa og lögðum við m.a. fram tillögu varðandi aukið öryggi á golfvellinum, uppbygginu á Varmársvæðinu og lagfæringar á Hlégarði.
Skattar og álögur hækka áfram
Fasteignaskattar Mosfellinga munu hækka umtalsvert annað árið í röð, sorphirðugjöld hækka mjög mikið, auk þess sem aðrar gjaldskrár hækka of mikið að okkar mati. Þessar hækkanir eru ekki góðar í baráttunni við verðbólgu og hátt vaxtastig og ekki jákvæðar fyrir komandi kjarasamningsviðræður, auk þess að vera almennt íþyngjandi fyrir bæjarbúa í núverandi efnahagsástandi.
Það gengur hægt að þoka framkvæmdum í Mosfellsbæ áfram, lóðaútlutanir hafa ítrekað dregist á langinn, bygging leikskóla í Helgafelli verður 1-2 árum á eftir áætlun, auk þess sem algjör óvissa ríkir um hvenær nauðsynlegar löngu ákveðnar framkvæmdir á íþróttasvæðinu að Varmá fari í gang.
Samstarf Aftureldingar og Mosfellsbæjar er ekki í góðum farvegi eftir að forsvarsmenn Aftureldingar sögðu sig frá samstarfi við bæinn vegna samstarfsörðugleika við meirihlutann og er sú staða óásættanleg.
Á vegum bæjarins hafa verið settir á stofn ýmsir starfshópar, ráðnir hafa verið verkefnastjórar í alls konar verkefni sem sum hver er þegar búið að vinna innan sviða Mosfellsbæjar, en það dugir ekki til því pólitískt þor er ekki fyrir hendi hjá meirihluta Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar til að taka mikilvægar ákvarðanir.
Þessi vinnubrögð gera það að verkum að áætlanir raskast með tilheyrandi óþægindum og kostnaðarauka fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.
Í rekstri ört stækkandi sveitarfélags eins og Mosfellbæjar, þarf öflugan, samheldinn og ábyrgan meirihluta sem þorir að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir og standa með þeim, og láta verkin tala.
Bæjarfulltrúar D-lista í Mosfellsbæ munu áfram styðja góðar tillögur meirihlutans og hvetja þau áfram til góðra verka. Við munum einnig halda áfram að koma okkar tillögum og stefnumálum á framfæri og leggja þannig okkar af mörkum til að áfram verði best að búa í Mosfellbæ.
Ég sendi bæjarbúum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Ásgeir Sveinsson
bæjarfulltrúi
oddviti D-lista