Fjárhagur og lóðaúthlutun í Mosfellsbæ
Það er gott og vinsælt að búa í Mosfellsbæ, íbúar hafa verið með þeim ánægðustu á landinu undanfarin ár samkvæmt könnunum og í gangi hefur verið mikil uppbygging innviða og viðhalds og endurnýjun eigna auk þess sem þjónusta við bæjarbúa er alltaf að aukast.
Mosfellsbær stendur vel fjárhagslega, þökk sé ábyrgri fjárhagsstjórn undanfarinna ára og þrátt fyrir mikið tekjufall vegna Covid var ákveðið samhljóða af fyrrverandi bæjarstjórn að halda áfram að vinna eftir gildandi framkvæmdaáætlun við uppbyggingu innviða eins og t.d. að klára Helgafellskóla og halda áfram viðamikilli endurnýjun og viðhaldi á öðrum fasteignum Mosfellsbæjar.
Þessi sama bæjarstjórn ákvað einnig að auka þjónustu við íbúa eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Álögur á íbúa hafa verið lækkaðar á líðandi kjörtímabili m.a. fasteignaskattar á íbúðar- og atvinnuhúsnæði, auk þess sem álögur á barnafólk voru lækkaðar verulega.
Þetta voru að mínu mati réttar og góðar ákvarðanir og það þurfti sterkan samheldinn meirihluta og pólitískan kjark til þess að koma þessu í framkvæmd. Í Mosfellsbæ sem er ört stækkandi sveitarfélag hafa verið framkvæmdir upp á u.þ.b. tvo til þrjá milljarða árlega undanfarin ár m.a. í uppbyggingu innviða og viðhaldi fasteigna sveitarfélagsins. Hluti af þeim kostnaði hefur komið með aukinni lántöku auk fjármagns úr eigin rekstri sveitarfélagsins. Það er því eðlilegt að skuldir sveitarfélagsins hafi aukist tímabundið.
Niðurstaða 6 mánaða uppgjörs 2022
Árshlutareikningur Mosfellsbæjar fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2022 sýna að almennur rekstur gekk vel og var í samræmi við þau markmið um þjónustu við íbúa sem sett voru.
Skatttekjur fyrstu 6 mánuði ársins eru hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það endurspeglar áframhaldandi hraðari viðsnúning atvinnulífsins í kjölfar heimsfaraldursins. Kostnaður er í takti við áætlanir með litlum frávikum.
Rekstur málaflokka gekk vel og er í góðu samræmi við fjárhagsáætlun. Þá var áfram mikið framkvæmt á tímabilinu og þá sérstaklega í viðhaldi og endurbótum fasteigna sveitarfélagsins.
Há verðbólga gerir það að verkum að útkoma fyrstu 6 mánaða ársins er lakari hjá Mosfellsbæ en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna aukins fjármagnskostnaðar, og er sú staða uppi hjá flestum sveitarfélögum á landinu um þessar mundir.
Íbúum í Mosfellsbæ fjölgar áfram en traustur daglegur rekstur á fyrri hluta ársins og sterk fjárhagsstaða þrátt fyrir tímabundin ytri áföll gera samfélaginu kleift að veita íbúum góða þjónustu sem hefur verið að aukast og mun vonandi gera áfram.
Tekjur af lóðaúthlutun
Fram undan er úthlutun lóða í 5. og 6. áfanga Helgafellshverfis og á Hamraborgarsvæði. Um er að ræða lóðir á landi í eigu Mosfellsbæjar og er heildarfjöldi um 250 íbúðareiningar, mest sérbýlislóðir undir einbýli, par- og raðhús.
Ráðgert var af fyrri meirihluta að úthluta lóðum úr 5. áfanga Helgafells strax eftir kosningar en tafir hafa orðið á því en nú er búið að leysa þau dómsmál sem ollu þeim töfum með fullnaðarsigri Mosfellsbæjar. Það ætti því ekkert að vera til fyrirstöðu fyrir nýjan meirihluta að úthluta lóðum þar fyrir lok þessa árs.
Úthlutun og sala á lóðum á þessum áðurnefndu svæðum mun tryggja Mosfellsbæ mörg hundruð milljóna króna tekjur á hverju ári á næstu 2-3 árum og er það mjög jákvætt fyrir fjárhag bæjarins.
Það er góð vöggugjöf fyrir nýjan meirihluta að fá þessar miklu lóðatekjur á næstu misserum og munu þær ásamt öðrum tekjum sem eru að aukast á hverju ári með stækkun bæjarfélagsins klárlega skipta miklu í þeirri áætlun sem er í gildi frá fyrri meirihluta að greiða hratt niður skuldir á næstu árum. Það ætti að tryggja að nýr meirihluti getur haldið áfram á sömu braut og undanfarin ár að auka þjónustu við íbúa, lækka álögur og tryggja að það verði áfram best að búa í Mosfellsbæ.
Ásgeir Sveinsson.
Bæjarfulltrúi.
Oddviti D-lista í Mosfellsbæ.