Skólarnir okkar
Skólar eru grunnstoðir í okkar samfélagi. Þeir gegna mörgum hlutverkum þó að meginmarkmiðið sé að sjálfsögðu að mennta börnin okkar í þeim grunngreinum sem skilgreindar hafa verið í aðalnámsskrá.
Menntun og fræðsla fer þó fram víða annars staðar en í skólastofum og jafnframt fer ýmislegt annað fram í skólastofunum en eingöngu kennsla í fögum. Það þarf nefnilega þorp til að ala upp barn en það orðatiltæki lifir enn góðu lífi þó að þorpið okkar sé orðið að fullvaxta bæ.
Fræðslumálin eru umfangsmikill málaflokkur í öllu tilliti. Um 66% af rekstrarfé bæjarins fer til fræðslu- og frístundamála. Langmestur fjöldi starfsmanna tilheyrir sviðinu og flestar fasteignir bæjarins tilheyra skólum og leikskólum.
Við getum verið og eigum að vera stolt af því skólasamfélagi sem fyrirfinnst í Mosfellsbæ. Hér er fjölbreytni í skólastarfi. Leik- og grunnskólar bæjarins leitast við að efla nýsköpun í sínu starfi og taka þátt í ýmsum þróunarverkefnum. Við eigum frábært fagfólk og reynda stjórnendur. Einnig er mikilvægt að eiga öflug foreldrafélög sem láta sig starfið varða og láta gott af sér leiða. Í vetur verður unnið að gerð aðgerðaáætlunar með nýrri menntastefnu sem er ætlað að styðja við starfið og efla það enn frekar. Auk þess verður lögð mikil áhersla á innleiðingu farsældarlaganna með það að markmiði að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.
Til hamingju Varmárskóli
Bæjarfulltrúar fengu send gullfalleg handskrifuð boðskort í afmæli Varmárskóla á dögunum. Skólinn skipar sérstakan sess í skólasamfélaginu okkar þar sem hann er elsti starfandi skólinn og þar stunduðu flestir fullorðnir Mosfellingar sína skólagöngu.
Það er skemmtilegt að velta fyrir sér þeim breytingum sem orðið hafa á kennsluháttum á líftíma skólans. En það er efni í aðra grein. Við óskum Varmárskóla innilega til hamingju með 60 ára afmælið og hlökkum til að fylgjast áfram með og taka þátt í þróun skólastarfs þar.
Áskoranir Kvíslarskóla
Eins og flestir vita hefur verið unnið mikið starf við lagfæringar á Kvíslarskóla á síðustu mánuðum. Allir eru sammála um að verkefnið er stórt og kom óvænt upp en ekkert annað er hægt að gera en að snúa bökum saman og leysa þetta.
Stjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skólans hafa sýnt af sér einstaka þrautseigju og gengið lausnamiðuð til sinna starfa á síðustu vikum. Þau sem hafa farið í framkvæmdir þekkja það vel að það getur verið erfitt að áætla umfangið í upphafi. Sú hefur einnig verið raunin í þessu verkefni. Það er að sjálfsögðu ósk allra sem hlut eiga að máli að skólastarf geta farið í eðlilegt horf sem allra fyrst og frekara rask verði í lágmarki.
Það er þó mikilvægt að taka fram að verkefnið verður klárað með sómasamlegum og metnaðarfullum hætti og við verklok, sem verða líklega ekki fyrr en seint á skólaárinu, munu nemendur og starfsfólk taka til starfa í stórendurbættu og nútímalegu húsnæði með nýjum búnaði.
Við höfum nýverið tekið sæti í fræðslunefnd Mosfellsbæjar og sitjum þar ásamt öðru góðu fólki. Nefndin er metnaðarfull og hefur sett sér starfsáætlun sem er aðgengileg fyrir alla á vef Mosfellsbæjar.
Aldís Stefánsdóttir, formaður fræðslunefndar og bæjarfulltrúi
Sævar Birgisson, varaformaður fræðslunefndar og bæjarfulltrúi