Gummi Braga opnar vefsíðuna Skillsspot.net
Skillsspot.net er nýr vefur eða gagnagrunnur í eigu fyrirtækisins Football Associates Ltd. Guðmundur Bragason er eigandi vefsins ásamt Baldri Sigurðsyni.
„Hugmyndin kviknaði árið 2012 og hefur verið í þróun síðan. Samstarfsaðili minn hefur búið í Bretlandi síðan 1989 og hefur m.a. starfað sem milliliður við kaup og sölu fótboltaklúbba og umsýslu í kringum leikmenn,“ segir Guðmundur.
Skillsspot er í raun gagnagrunnur þar sem fótboltamenn og konur geta sett inn sínar ferilskrár, myndir, myndbönd, meðmæli og fleira sem tengist leikmönnunum. Gagnagrunnurinn verður síðan kynntur fyrir fótboltaklúbbum í Englandi sem auðveldar þeim finna leikmenn. Til að byrja með ætlum við að einbeita okkur að Englandi og fótbolta en framtíðarsýnin er að bæta við fleiri löndum og fleiri íþróttagreinum.“
Margir íslenskir leikmenn sem gætu haft það gott í neðri deild í Englandi
„Við erum ekki umboðsmenn heldur milliliður á milli leikmanna og klúbba. Við komum til með að einbeita okkur að 3. efstu deild Englands og niður, þó svo að gagnagrunnurinn henti öllum deildum.
Það geta allir skráð sig þarna inn, ekki bara Íslendingar. Það er hellingur af leikmönnum hér sem annars staðar sem myndu spjara sig vel í neðri deildunum á Englandi og hafa það fínt. Það er þörf á þessari þjónustu bæði í deildunum í Englandi og fyrir fótboltastráka og stelpur sem hafa kannski ekki getuna í að spila í efstu deild en langar að upplifa að æfa og spila erlendis,“ segir Guðmundur en vefurinn og gagnagrunnurinn er hannaður og forritaður af íslenska fyrirtækinu Habilis.
Frí skráning til 5. desember
„Við erum búnir að kynna hugmyndina fyrir nokkrum klúbbum í Englandi og höfum fengið mjög góð viðbrögð. Klúbbarnir fá aðgang að gagnagrunninum og geta leitað þar að því sem þeir sækjast eftir.
Við hvetjum alla sem áhuga hafa til að skrá sig og setja inn meira en minna af upplýsingum. Árgjaldið fyrir skráningu er 50 pund eða um 10.000 kr. Við ætlum að bjóða lesendum Mosfellings fría skráningu til 5. desember, greiðslulykillinn er XNLGYBCB,“ segir Guðmundur að lokum. Skráningin fer fram á www.skillsspot.net.“