Þakklæti að lokum
Það er gefandi að taka þátt í sveitarstjórnarmálum. Það er líka mikil ábyrgð sem fylgir því að taka þátt í sveitarstjórnarmálum.
Þegar á mig var skorað fyrir sveitarstjórnarkosningar á árinu 2018, að starfa með hópi fólks sem hafði það eitt að markmiði að koma að uppbyggingu og þjónustu við Mosfellinga með lýðræði, heiðarleika og þekkingu að vopni, var áhugavert að vera með. Hópi sem nefnir sig Vini Mosfellsbæjar en í nafninu felst í raun allt sem segja þarf.
Þessi þátttaka mín hefur gefið mér mikið. Ég hef fengið aukna þekkingu á hvað í starfi þeirra sem starfa á þessum vettvangi felst. Ég hef kynnst hópi fólks, fólki sem hefur gefið sig fram til að starfa á pólitíska sviðinu, mörgu því frábæra fólki sem starfar hjá sveitarfélaginu og ég hef kynnst mörgum íbúum sem ég hefði kannski annars ekki kynnst. Fyrir þetta vil ég þakka.
Ég vil hvetja alla sem áhuga hafa á sveitarstjórnarmálum, ekki síst unga fólkið, að gefa kost á sér til starfa og nýta þekkingu sína til að koma að góðum verkum því ég veit að ef íbúar standa saman, ræða málin, hvort sem er í skólamálum, skipulagsmálum eða hverjum öðrum málum sem okkur öll varða, leyfum öllum þeim mannauði sem Mosfellsbær býr yfir að njóta sín og koma að málum, þá þurfum við ekki að kvíða framtíðinni.
Það er líka tímafrekt að taka þátt í sveitarstjórnarmálum sé þeim sinnt af heilindum og með sóma og hef ég nú ákveðið að beina kröftum mínum og tíma á annað svið.
Ég kveð þennan vettvang með miklu þakklæti í huga, bæði fyrir það traust sem mér var sýnt svo og þakklæti til þeirra sem ég hef átt í samskiptum við.
Margrét Guðjónsdóttir
Höfundur er varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar 2018-2022