11 bæjarstjórar
Í kosningum á laugardaginn gefst okkur Mosfellingum í fyrsta skipti kostur á að velja 11 einstaklinga til að stýra bænum okkar.
Þessir 11 einstaklingar eru fulltrúar ólíkra hreyfinga, með mismunandi áherslur og stefnumál, en við það að taka sæti í bæjarstjórn verða þeir um leið líka fulltrúar okkar allra. Ábyrgð á stjórnun bæjarins liggur nefnilega hjá bæjarstjórn sem slíkri, ekki hjá flokkum eða listum.
Bæjarstjórn og nefndir bæjarins eru það sem kallast fjölskipað stjórnvald, þ.e. fyrirbæri þar sem stjórnsýsluákvarðanir eru teknar saman. Ákvarðanir verða ekki teknar nema á fundum.
Við hjá Vinum Mosfellsbæjar trúum því að þar eigi að gefast tækifæri til að ræða málin og skoða þau út frá mismunandi sjónarmiðum, til að finna bestu lausnina og niðurstöður sem þóknast flestum, með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Að sjálfsögðu er ekki hægt að ræða málin endalaust og er hin almenna regla lýðræðisins að meirihlutinn ræður en sá meirihluti þarf ekki að vera fyrirfram ákveðinn, heldur endurspegla upplýsta ákvörðun, eins og í öllum vinahópum.
En hvernig er það, ræður bæjarstjóri ekki öllu? Nei, alls ekki. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og ber því eingöngu ábyrgð á að framkvæma það sem bæjarstjórn hefur ákveðið. Þess vegna teljum við hjá Vinum Mosfellsbæjar að fagráðinn bæjarstjóri, sem er ekki bæjarfulltrúi og situr þannig ekki báðum megin borðsins, sé heppilegast leiðin til að halda hlutverkum skýrum og koma í veg fyrir hagsmunaárekstra.
Veljum breytta stjórnarhætti, verum Vinir.
Michele Rebora skipar 4. sæti á lista Vina Mosfellsbæjar