Mosó – bær íþrótta, menningar og lista

Hilmar Stefánsson

Það er gott að vera Mosfellingur. Bærinn vex og dafnar og það er ánægjulegt að fylgjast með fleira og fleira fólki setjast hér að og gera Mosfellsbæ að sínum heimabæ.
Fjölbreytt menningarlíf, öflugt íþrótta- og tómstundastarf og tækifæri til fjölbreyttrar útivistar í náttúrunni allt um kring eru meðal margra góðra þátta sem við Mosfellingar erum svo lánsamir að búa við. Því skal kannski engan undra að samkvæmt árlegri könnun Gallup segjast nú 89% bæjarbúa ánægðir með Mosó sem stað til að búa á.
Undirstaða þess sem tryggir gott bæjarfélag hvar íbúar eru ánægðir er meðal annars ábyrgur og traustur rekstur. Til viðbótar við það þarf framsýna menn og konur í brúnni sem hafa hugmyndaauðgi, hugrekki og þor til að hugsa út fyrir hið hefðbundna, vera skapandi við úrlausnir áskorana og taka ákvarðanir byggðar á framtíðarsýn og í góðu samráði við íbúa.
Á komandi kjörtímabili viljum við sjálfstæðismenn að Mosfellsbær verði áfram fjölskylduvænn, heilsueflandi og framsækinn bær sem hefur velferð og þarfir allra íbúa að leiðarljósi og að hér verði áfram eftirsóknarvert að búa, bæði fyrir nýja og eldri Mosfellinga.

Við vitum að skapandi umgjörð um menningarmál er öllum samfélögum holl og því viljum við sjálfstæðismenn gera okkar til að stuðla að fjölbreyttu og blómlegu menningarlífi í Mosfellsbæ. Við viljum vinna að því að skapa frjóan og góðan jarðveg til að efla og styðja við menningarstarfsemi í bænum, efla menningartengda ferðaþjónustu og auka við framboð menningarviðburða í bænum. Við viljum auk þess stuðla að byggingu á fjölnota menningarhúsi á sama tíma og við hugum að því hvernig hægt er að nýta enn betur húsakynni bæjarins í þágu lista og menningar.
Öflugt íþrótta- og tómstundastarf er annað sem við Mosfellingar höfum verið lánsamir að njóta en þar hefur ómetanleg þátttaka sjálfboðaliða spilað lykilhlutverk.
Við þekkjum mikilvægi þess að fólk á öllum aldri, börn, fullorðnir og eldri borgararar, hafi gott aðgengi að íþrótta- og tómstundastarfi, meðal annars vegna þess hversu mikið heilbrigð hreyfing getur stuðlað að líkamlegu hreysti og skipt sköpum fyrir andlega vellíðan.

Við viljum því tryggja að það íþrótta- og tómstundastarf sem er í boði í Mosfellsbæ sé vel kynnt íbúum svo þeir geti með auðveldum hætti leitað sér upplýsinga og nýtt sér til heilsueflingar.
Við viljum einnig stuðla að áframhaldandi uppbyggingu íþróttasvæða og íþróttamannvirkja, meðal annars með því að bæta við íþróttamiðstöðvarnar í Lágafelli og að Varmá og ljúka við endurnýjun á Tungubökkum. Þá viljum við hækka enn frekar frístundaávísanir, halda áfram uppbyggingu til útivistar, tryggja áframhaldandi stuðning við jaðaríþróttir og þannig stuðla að heilbrigðri samveru fjölskyldna og annarra í Mosfellsbæ.

Tryggjum áframhaldandi vöxt og mótum framtíðina saman. Setjum X við D þann 14. maí.

Hilmar Stefánsson
Höfundur skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðis­flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.