Varmá til framtíðar

Lovísa Jónsdóttir

Í síðasta tölublaði Mosfellings voru kynntar fyrir bæjarbúum fyrirætlanir um byggingu þjónustuhúss við íþróttahúsið að Varmá.
Þetta er löngu tímabær uppbygging sem við í Viðreisn vorum með á stefnuskrá okkar fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. En því miður þá lítur allt út fyrir að þessi bygging verði enn einn búturinn í bútasaumsteppið Varmá.
Með byggingu þessa húss er verið að skapa félagsaðstöðu sem lengi hefur verið kallað eftir. Við bætast 4 búningsklefar og aðkoman að húsinu verður eins og hún á að vera í nútímalegri íþróttaaðstöðu. En er þetta nóg? Hvar er heildarsýnin fyrir svæðið? Mosfellsbær er í örum vexti og mun halda því áfram á næstu árum.

Framtíðarsýnin
Þessi byggingaráform bera það helst með sér að þau séu ætluð til þess að leysa stöðuna eins og hún er í dag en ekki vanda morgundagsins. Við í Viðreisn teljum að það þurfi að horfa lengra fram í tímann og vinna okkur í haginn. Við vitum að íbúum mun fjölga hratt á næstu árum og það er svekkjandi að vera ekki fyrr búin að vígja nýja aðstöðu en að hún er orðin úrelt.
Síðast þegar búningsklefum var bætt við, árið 1986, voru íbúar sveitarfélagsins færri en 2.500. Við vorum ennþá Mosfellssveit. Núna á að bæta við fjórum klefum sem eiga að þjóna bæjarfélagi sem telur rúmlega 13.000. Tvöföldun á klefum fyrir meira en fimmfalt stærra bæjarfélag.
Í mörg ár hefur ekki verið hægt að bjóða öllum gestaliðum sem koma hingað til að keppa að fara í sturtu eftir leik. Þó að fjórir klefar séu vissulega til bóta þá þarf ekki mikla stærðfræðikunnáttu til þess að átta sig á því að þetta er ekki nóg.

Frístund á Varmá
Það sem við í Viðreisn söknum þó einna mest er að þetta gullna tækifæri sé ekki nýtt til að huga að aðstöðu fyrir börnin okkar, fyrir og eftir að þau stunda sínar íþróttir.
Við í Viðreisn viljum að á Varmársvæðinu verði frístund sem börn geta nýtt þá daga sem þau sækja æfingar í íþróttahúsinu. Þarna verði aðstaða þar sem börnin geta geymt skólatöskur og annað sem fylgir þeim á æfingar, geti borðað nestið sitt og séu í umsjón fagaðila sem myndu sinna þessu starfi á sömu faglegu forsendum og eru í frístund í skólunum sjálfum.
Svona getum við tryggt að börnin séu í öruggu umhverfi og geti farið í frístund eftir æfingu, sem í dag er ekki hægt. Með þessari lausn er bæði hægt að einfalda líf foreldra og auðvelda Aftureldingu að bjóða börnunum að prófa fjölbreyttar íþróttir.
Við megum líka alls ekki gleyma því að við fáum varla betra tækifæri til þess að skapa aðstöðu til íþróttaiðkunar fyrir börn með fatlanir. Það er auðvelt að taka þarfir þessa hóps inn á þessu stigi en það getur reynst erfitt að breyta húsnæði eftir að það er risið.

Það mætti telja upp mörg atriði til viðbótar; aðstöðu fyrir eldri borgara, aðstöðu við þjálfara og starfsfólk. Við þurfum að taka Varmársvæðið í heild, skipuleggja það í samráði við alla hagaðila og horfa til framtíðar. Þannig getum við eignast íþróttasvæði sem sæmir Mosfellsbæ.

Þessu viljum við breyta.
Þú getur breytt – Veldu Viðreisn.

Lovísa Jónsdóttir,
oddviti Viðreisnar í Mosfellsbæ