Öll á sama báti
Aðgerðir okkar í loftslagsmálum gagnast veröldinni. Það sem önnur ríki ná að gera í þeim efnum er samtímis í okkar þágu.
Einföld sannindi rétt eins og þau að jákvæðar aðgerðir, sem minnka losun kolefnisgasa eða binda kolefni, eru ekki á fárra höndum. Þær eru flókið langtíma samvinnuverkefni stjórnvalda, þ.e. ríkis, þings og sveitarstjórna, margvíslegra samtaka, fyrirtækja og almennings. Enginn er eyland þegar kemur að umhverfi samfélaga hvar sem þau eru. Við erum þar með öll í sama bátnum hvað sem fjarlægðum og ólíkri menningu veraldar líður. Þetta á líka við um aðlögun að loftslagsbreytingunum. Þar mun alþjóðleg samvinna skipta meginmáli.
Orkuskipti eru meðal helstu verkefna. Til þeirra þarf raforku. Full orkuskipti merkja að vélknúin tæki á landi, sjó og í lofti nota ekki olíu, bensín eða þotueldsneyti, heldur „grænt“ rafmagn og rafeldsneyti, byggt á vetni framleiddu með slíkri orku, að því marki sem samfélagið ákveður.
Markið er nú sett við 2040 og þá búið að „fasa út“ yfir milljón tonna ársnotkun af jarðefnaeldsneyti. Sjálfbær orkustefna og raunhæf loftslagsstefna Íslands eiga að taka mið af þessu næstu 18 árin. Samhliða æ minni losun kolefnisgasa verður reynt að binda sem mest kolefni í gróðri og jarðvegi með ýmsum aðferðum.
Sveitarfélög hafa sem betur fer sett sér umhverfis- og loftslagsstefnu, sum jafnvel líka auðlindastefnu. Mosfellsbær hefur, m.a. með stuðningi VG, tekið þátt í vinnu við nýja, sameiginlega loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið: Grunnstefnu sem sveitarfélög geta lagað að sér. Góðar vonir eru bundnar við hana.
Kolefnisspor Íslands er stórt miðað við fólksfjölda. Aðgerðir hér varða bæði ábyrgð okkar og velferð milljarða manna, þegar allt kemur til alls. Við erum þátttakendur í örlagaríku verkefni jarðarbúa. Það munar um Mosfellsbæ í þessu samhengi.
Sveitarfélagið getur og á að spara orku og minnka kolefnislosun með orkuskiptum í sínum ranni. Fyrirtæki og samtök geta það, einnig heimilin, og við getum unnið saman að því að binda kolefni með því bæta við gróðri og endurheimta votlendi. Vernda og ganga vel um umhverfið, m.a. minnka notkun og sóun plasts sem mengar umhverfið víða í sveitarfélaginu.
VG er með framsýna stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum og hefur sýnt ábyrgð í málefnum sveitarfélagsins. Hún þarf áfram að skila sér til samfélagsins í Mosó.
Ari Trausti Guðmundsson
skipar 14. sæti V-lista í kosningunum 14. maí.