Dýravelferð
Fjöldi fólks nýtur návist dýra og þess að eiga dýr. Fjölmargir umgangast dýr í tengslum við störf sín, eru bændur, ræktendur dýra eða starfa með dýrum, sbr. lögregla með sporhunda eða blindir í leik og starfi með leiðsöguhunda. Einnig eru margir með gæludýr sér til ánægju og yndisauka, fjölskyldumeðlim sem skiptir þá miklu.
Við sem dýrkum dýrin viljum tryggja velferð þeirra. Við viljum að þau lifi og dafni við hin bestu skilyrði. Um velferð dýra gilda ákvæði laga nr. 55/2013. Markmið laganna eru m.a. að dýr, sem og skyni gæddar verur, séu laus við: Vanlíðan; Hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsl og sjúkdóma.
Í Mosfellsbæ er einnig fjöldi einstaklinga sem stundar hestamennsku og eiga gæludýr. Í Mosfellsbæ er m.a. heimilt að halda allt að 6 hænur en hanar eru óheimilir. Slíkt leyfi er veitt til 5 ára í senn. Líkur eru á að hávaðinn í hönum valdi þessu.
Aðeins eitt hundagerði, um 1500 fermetrar, er í Ullarnesbrekkum í annars ágætu umhverfi Ævintýragarðsins hér í bænum. Ég vil sjá að fjölgað verði hundagerðum í Mosfellsbæ. Það mætti t.d. koma upp hundagerði við fallegt umhverfið á Leirvogstungumelum, á Blikastöðum og á gönguleiðum við Helgafellshverfi svo einhver dæmi séu nefnd. Mikilvægt er að hundar, sem annars eru mikið í bandi, fái hreyfingu og að eigendur geti leitað á svæði þar sem dýrin eru örugg. Það er hluti að dýravelferð.
Einnig þurfum við að gæta að því að ónæði verði ekki af dýrahaldi með því að tryggja að hundar gangi ekki lausir í þéttbýli eða séu eftirlitslausir. Í dag verða bæjarbúar í Mosfellsbæ að leita til Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem staðsett er í Hlíðarsmára 14 í Kópavogi til skráningar. Það kom til eftir að ákveðið var að leggja niður Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis sem Mosfellsbær var aðili að og var áður staðsett hér í bænum. Sé ætlunin að skrá hunda hér í Mosfellsbæ skal því nú leitað til þessa eftirlits í Kópavogi.
Sérstakt fagráð, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir skipun á, er Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra. Í þessu fagráði sitja fimm menn og skal það skipað fagfólki á sviði m.a. dýralækninga, búfræði og siðfræði.
Ég er sjálf hundaeigandi og mér þykir afskaplega vænt um dýr enda valdi ég mér starfsvettvang við umönnun dýra. Með því að umgangast dýr geta margir aukið lífsgæði sín til muna, aukið hreyfingu og heilsueflingu. Því er mér mikið í mun að í Mosfellsbæ verði komið upp „Degi dýranna“ þar sem skapaður yrði vettvangur fyrir dýraeigendur og almenning til að kynnast betur hvor öðrum og heim dýranna. Þar gætu fyrirtæki á sviði dýravelferðar, dýralæknar og aðrir, kynnt störf sín og þjónustu og jafnvel væri hægt að bjóða uppá fræðslu um umönnun og umgengni dýra. Einnig gætu bændur, sem starfa í bænum, kynnt starfsemi sína.
Með slíkum viðburði mætti einnig koma á framfæri upplýsingum til eigenda svo auka megi velferð dýra.
Helga Diljá Jóhannsdóttir, dýralæknir
Skipar 4. sæti á lista Miðflokksins fyrir næstkomandi sveitarstjórnarkosningar – Fyrir lifandi bæ