Er meira betra?
Ég las nýlega viðtal við sterkasta mann Íslands, Stefán Karel Torfason, þar sem hann var að auglýsa íslenskt fætubótarefni. Þetta var áhugavert viðtal, meðal annars vegna þess að hann sagði orðrétt: „Aflraunir eru mjög óheilbrigt sport fyrir líkamann.“ Hann bætti við að hann vildi stunda sportið á sem heilbrigðastan hátt og að fæðubótarefnið hjálpaði mikið til. Ég trúi honum, bæði varðandi fæðubótarefnið og það að aflraunir séu ekki hollar fyrir líkamann. Álag á liði líkamans er mikið og sömuleiðis er meltingarkerfið í yfirvinnu þar sem þeir sem vilja ná árangri þurfa að borða óhóflega mikið.
Það er óalgengt að íþróttamenn í fremstu röð segi beint út að íþróttin sem þeir stunda sé ekki holl fyrir líkamann þegar æft er svona mikið. Algengara er að við horfum á þá bestu sem fyrirmyndir í æfingum og lífsstíl.
En er það góð hugmynd? Eigum við, sem erum ekki að stefna að því að vera í fremstu röð í afreksíþróttum, að æfa eins og þeir bestu? Er hollt að æfa CrossFit sex sinnum í viku? Er hollt að hlaupa mörg hundruð kílómetra í beit? Er hollt að reyna alltaf að lyfta þyngra en síðast? Er hollt að hlusta ekki þegar líkaminn reynir að senda okkur skilaboð um að slaka aðeins á? Fæstir pæla ekki mikið í þessu fyrr en líkaminn gefur mjög skýr skilaboð eftir of mikið álag í of langan tíma.
Íþróttir hafa verið hluti af mínu lífi nánast frá fyrsta degi. Í kringum mig hafa alltaf verið einhverjar íþróttir, æfingar og leikir. Það er gaman að vinna sigra og ná árangri, en það er enn skemmtilegra að geta hreyft sig skikkanlega og leikið sér fram eftir öllum aldri. Til þess að geta það þarf að pæla aðeins í hlutunum, stýra álaginu og ekki láta glepjast af meira er betra boðskapnum.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 7. október 2021