Ófærð í Mosfellsbæ

Sveinn Óskar Sigurðsson

Í nýliðnum mánuði kom fram í fréttum að fyrrverandi forseti Íslands kæmist ekki lengur með góðu móti í reglulegan göngutúr um Mosfellsbæ.
Ástæða þess er að samgöngumannvirki fyrir gangandi til og frá heimili hans meðfram Varmá væru ekki aðeins torfær heldur ófær. Hafði Varmáin blessunin bólgnað nokkuð og flæddi yfir bakka sína. Forsetinn fyrrverandi reyndi að fara með löndum og birti athugasemd sína á Twittersíðu sinni á enskri tungu. Stillti hann athugasemdum sínum í hóf en engu að síður fengu þær heimsathygli.
Í 3. ml. 3. mgr. yfirmarkmiða 6. kafla um staðarmótun og landslagsvernd, sem lesa má í tillögu Skipulagsstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðherra að landsskipulagsstefnu (2015-2026) frá í febrúar sl., segir: „Eins getur húsum, götum í þéttbýli, vegum í sveitum og útivistarstígum verið þannig fyrir komið að fólki gefist tækifæri til að skynja og öðlast nýja sýn á landslag viðkomandi svæðis.“ Þessi texti á vel við hvað umhverfið meðfram Varmá varðar.

Svo virðist sem bæjaryfirvöld hafi eitthvað tjáð sig um málið. Segir sagan að ástæðan fyrir því að útivistarstígurinn væri forsetanum fyrrverandi ófær sé sú að íbúar við Varmá vildu ekki fórna landi sínu svo hemja mætti á sem væri á náttúruminjaskrá.
Svo virðist sem að deilur hafi staðið í áraraðir og Mosfellsbær ákveðið að friða ána alla árið 2012 til að lægja öldurnar. En Varmá tók þessu greinilega fálega enda flæðir hún enn yfir bakka sína, nú víðs fjarri heimili fyrrverandi forsenda landsins eða í um 300 metra fjarlægð. Fullyrt er að einhver skýrsla hafi verið tekin af forsetanum fyrrverandi af hálfu Mosfellsbæjar en engar spurnir eru af henni og hún líklega flotið hjá kerfinu í vorleysingum.

Mynd tekin við göngustíg á bökkum Varmár í Mosfells­bæ. Ljósmyndari: Ólafur Ragnar Grímsson, fv. forseti Íslands og íbúi í Mosfellsbæ.

Fyrir leikmenn, m.a. þá sem ekki hafa komið nálægt opinberri stjórnsýslu svo nokkru nemi, virðist sem þarna þurfi tvo til þrjá vaska menn með skóflu í tvo til þrjá daga svo leysa megi vandann. En það þarf víst að bíða eftir skýrslunni.
Samkvæmt forstöðumanni Þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar, sem er jafnframt staðgengill bæjarstjóra í erfiðum málum, er Varmá á náttúruminjaskrá eins og að framan er getið.
Ekki má lesa úr þeirri tilvitnun, sem finna má á vef Fréttablaðsins 17. september 2021, annað en að fyrrverandi þjóðhöfðingi okkar verði að búa við torfæra stíga mun lengur en vænta mátti. Sama á einnig við um aðra bæjarbúa sem bregða sér reglulega í göngutúra í Mosfellsbæ.
Rétt er hér að ítreka að friðun árinnar allrar gekk í gildi 2012 en gildandi deiliskipulag, sem gerir ráð fyrir útivistarstíg með Varmánni, er frá árinu 2004. Því hefði verið í lófa lagið, þ.e. í tíð fyrri meiri hluta Sjálfstæðisflokks og VG, að koma málum þannig fyrir að göngustígar séu fremur færir en torfærir og hvað þá ófærir. Til að tryggja upplýsingaflæði og gagnsæi gagnvart bæjarbúum hefur bærinn merkt stíga torfæra.
Reikna má með að rosknir íbúar Mosfellsbæjar þurfi nú að ráða til sín fjallaleiðsögumenn áður en haldið er í göngutúr um bæinn, a.m.k. meðfram Varmánni.
Mosfellsbær rekur hér metnaðarfulla stefnu sem byggir á verkefninu Heilsueflandi samfélagi. Þar er sérstök áhersla lögð á hreyfingu og útivist. Ítrekað er mikilvægi þess að „einstaklingar á öllum aldri hafi tækifæri til að þroskast í leik og starfi, að hægt sé að bæta hið manngerða og huga að félagslegu umhverfi íbúa.“
Um lífsgæði segir: „Hér er einnig komið inn á heilsusamlegt húsnæði og umhverfi fyrir alla.“. Yfir þessu verkefni er stýrihópur sem ætti að standa með forsetanum fyrrverandi og þrýsta á úrbætur áður en vetur konungur gengur í garð. Það er ekki auðsamið við hann þegar allt frýs.

Sveinn Óskar Sigurðsson, fulltrúi Miðflokksins
í bæjarráði og bæjarstjórn Mosfellsbæjar.