ALLT fasteignasala opnar í Kjarna
ALLT fasteignasala hefur opnað útibú í Þverholti 2. Fasteignasalan er staðsett í gamla Íslandsbankarýminu í Kjarnanum en fyrir eru starfsstöðvar í Reykjanesbæ, Grindavík og Vestmannaeyjum.
Kristinn Sigurbjörnsson, annar eigenda ALLT, hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan 2016. Sjálfur hefur Kristinn búið í Mosfellsbæ í þrjú ár og telur að með allri þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað í bæjarfélaginu undanfarið hafi skapast aukið rými fyrir fleiri fasteignasölur.
„Það er auðvitað mikil fjölgun íbúa hér í bænum og ég sé mikla möguleika í að þjónusta fólk í bæði kaupum og sölu með mína þekkingu,“ segir Kristinn sem er byggingafræðingur og húsasmíðameistari að mennt og þekkir því ferlið allt frá grunni. „Einnig get ég aðstoðað byggingaverktakana frá upphafi, þegar þeir eru að hanna og breyta, og komið þannig fyrr að verkefnunum.“
Þjónusta allt höfuðborgarsvæðið
ALLT er framsækin og hágæða fasteignasala sem leggur áherslu á ánægjuvog bæði kaupenda og seljanda, öryggi og nákvæmni í öllum vinnubrögðum og framsækni í framsetningu og kynningu á eignum sem eru til sölu- eða leigumeðferðar hjá fyrirtækinu.
Útibúið í Mosfellsbæ mun þjónusta allt höfuðborgarsvæðið og höfðu þeir lengi haft augastað á húsnæði í Mosfellsbæ. „Fólk er nánast hætt að koma inn á fasteignasölurnar, við vinnum í raun bara heiman frá þeim sem eru að selja og getum því verið hvar sem er,“ segir Kristinn.
Í heildina starfa 15 manns hjá fasteignasölunni, þar af 8 hér í Mosfellsbæ. „Við hvetjum bæjarbúa til að kíkja til okkar í kaffi og spjall eða fá góðar ráðleggingar,“ segir Kristinn og bætir við að skráðum eignum hjá þeim í Mosfellsbæ fari ört vaxandi.