Gervigrasvöllurinn að Varmá veturinn 2015 – 2016
Nú þegar vetraræfingar á gervigrasvellinum eru farnar af stað á fullum krafti er rétt að benda á nokkur atriði sem koma til umræðu á hverjum vetri. Völlurinn er keyrður með hámarks kyndingu yfir vetrartímann eða með eins háu hitastigi og völlurinn þolir, hitakerfið undir vellinum ræður með því móti við að hita völlinn og bræða snjó að ákveðnu marki. Við viss skilyrði er mögulegt að skafa snjó af vellinum sem hitalagnirnar ráða ekki við og er það gert um leið og aðstæður og veður leyfir. Komi sú staða upp, stefnum við að ljúka því áður en æfingar hefjast um miðjan daginn. Þessar aðstæður skapast stundum þegar snjóar mjög mikið og hitastig er rétt ofan við frostmark.
Völlurinn er ekki mokaður þegar skafrenningur er og holklaki myndast í miklu frosti. Þá er besta leiðin að æfa á vellinum og troða þannig niður frosnu skánina/klakann, þá molnar/brotnar hann niður og hitalagnir vallarins bræða hann.
Ekki verður hjá því komist að æfingar og leikir munu falla niður einhverja daga í vetur vegna veðurs, jafnt hér eins og á öðrum gervigrasvöllum. Munum við reyna okkar besta til að halda vellinum opnum eins og aðstæður leyfa.
Síðasta vetur kom á daginn að völlurinn að Varmá var mun oftar æfinga- og leikfær en vellirnir sem næstir okkur eru í Grafarvogi og Grafarholti.
Fundað hefur verið með yfirþjálfara knattspyrnudeildar til að undirbúa þjálfara undir að hafa hjá sér plan B ef æfingar falla niður á vellinum í vetur, vegna snjóa eða veðurs, svo hægt sé að taka á móti iðkendum á æfingatímum og finna þeim verkefni. Við vonum að sjálfsögðu að þeir dagar verði færri en nokkru sinni fyrr.
Með fótboltakveðju,
Sigurður Guðmundsson, íþróttafulltrúi.
Hanna Símonardóttir, vallarstjóri.
Greinin birtist í Mosfellingi 22. október 2015