Hin góða frétt!
Jólasálmur desember 2020
Enn og aftur heyrist Heims um ból,
í helgri stund um jól þá lægst er sól.
Um atburð þann sem þykir bera af,
þá Guð oss mönnum syndir fyrirgaf.
Með nýja von í hjarta heimur lifir,
hin góða frétt var mannkyni til bóta.
Í sínu Orði vakir Guð oss yfir,
öll við fáum gæsku hans að njóta.
Í Ritningunni sögð er þessi saga,
sem af Jesú öll við megum læra.
,,Sjá, – ég er með yður alla daga,
allt til enda“!, orðin huggun færa.
Guð er heill í allri helgun sinni,
Hann í Kristi kom til vor að gefa.
Lát hann setjast að í sálu þinni,
sönn er trú sem ekki býr við efa.
Guð í sínum boðskap vill oss benda,
beina hug að atburðinum sönnum:
,,Til hjálpræðis þá vil ég son minn senda,
Sjá,- engill boðar fögnuð öllum mönnum“.
Jesús sem til frelsunar var fæddur,
fögnuð ást og kærleika út breiddi.
Hann var mildri föðurgæsku gæddur,
græddi, kenndi, og brotnar sálir leiddi.
Við höldum jól og fögnum öll í friði,
fæðing Jesú vekur trú í hjörtum.
Þótt jólatíð með tímans þunga niði,
tifi hjá, með nýársdegi björtum.
Eftir jólin skín við birtan skæra,
skín mót nýju ári von í hjarta.
Öll þau jól sem frelsarinn mun færa,
fögnum við á ný mót hinu bjarta.
Gleðileg jól.
Sigurður Rúnar Ragnarsson.
Þjónandi prestur í Mosfellsprestakalli.