Ástríða mín liggur í að miðla tónlist
Berglind Björgúlfsdóttir tónlistarmiðlari og frumkvöðull segir tækifærin til að mennta og efla ungviðið liggja í náttúrutengingunni.
Hún er söngkona, kennari, tónlistarmiðlari og frumkvöðull og hefur víðtæka menntun og reynslu af tónlistaruppeldi með börnum og fjölskyldum. Hún hefur stjórnað fjölmörgum barnakórum, haldið tónleika víða um heim og námskeið hennar vekja ávallt mikla lukku. Það sem hún tekur sér fyrir hendur gerir hún með mikilli næmni, hún helgar rýmið og spinnur töfraþráðinn þar sem náttúran ræður ríkjum.
Hún stofnaði fyrirtækið Samleikur.is árið 2019 og býður upp á hin ýmsu Ukulele-námskeið ásamt því að sjá um sérsniðna viðburði fyrir fyrirtæki og hópa. Konan sem um ræðir heitir Berglind Björgúlfsdóttir.
Berglind fæddist í Reykjavík 7. október 1965. Foreldrar hennar eru þau Pálína Jónsdóttir og Björgúlfur Þorvarðarson en þau eru bæði menntuð kennarar. Berglind á fjögur systkini, Þorvarð f. 1962, Bergstein f. 1963, Sigurbjörgu f. 1970 og Bjarka f. 1974.
Lærðum að vinna í sveitinni
„Ég átti mér sumar- og vetrarhaga eins og Samarnir í Norður-Skandinavíu. Ég ólst upp í Garðabænum en var svo farin í sveitina í Rangárvallasýslu í maí ár hvert til að hjálpa til í sauðburði, reka beljur, raka og sæta tún. Í sveitinni upplifði ég mikið frelsi og var mikið út í náttúrunni með mínu fólki. Ég fékk næði til að dunda, rannsaka, skapa, veiða og síðast en ekki síst að umgangast húsdýrin. Í sveitinni lærðum við líka að vinna.“
Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð
„Ég var nemandi í Barnaskóla Garðahrepps sem nú heitir Flataskóli og fór þaðan í Garðaskóla. Allt skapandi skólastarf og íþróttir höfðuðu til mín. Mér gekk vel í því sem ég hafði áhuga á, „þar er allur sem unir“, eins og máltækið segir“.
Ég man eftir fyrsta tónlistartímanum, átta ára gömul, hjá Guðmundi Norðdal tónmenntakennara. Við sungum, „Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð, um sólina vorið og land mitt og þjóð“. Þetta er sterk minning og lýsir svolítið mér og mínu lífi“.
Ég byrjaði níu ára í Skólakór Garðabæjar og söng þar hjá Guðfinnu Dóru kórstjórnanda fram undir menntaskólaárin. Fimleikar voru mér hugleiknir og ég stundaði þá hjá Fimleikafélaginu Björk. Ég þurfti svo að velja á milli fimleikanna og söngsins og söngurinn varð fyrir valinu“.
Á nokkra óvenjulega titla
Berglind hefur sterkar skoðanir á menntun og námsumhverfi og vill ekki vera stimpluð eða skilgreind eftir þeim menntastofnunum sem hún hefur sótt en gaf mér samt innsýn í mennta- og atvinnuveginn.
Eftir skólaskyldu fór hún í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá fornmáladeild. Á sumrin starfaði hún sem umsjónarmaður skólagarðanna í Garðabæ og á Vífilsstaðaspítala. Hún hélt síðan í Iðnskólann í Reykjavík og lærði tækniteiknun því hún ætlaði sér að verða arkitekt. Leiðin lá svo í Kennaraháskólann með myndmennt sem aðalfag.
Hún lauk 7. stigs söngprófi frá Tónlistarskóla Garðabæjar árið 1991 og meistaragráðu í listkennslufræðum frá Listaháskóla Íslands árið 2015.
Í nokkur ár starfaði hún á Stöð 2, meðal annars sem þula. Berglind gengur einnig undir nöfnunum, kálkonan og fuglakonan og þykir vænt um þá titla.
Áttum góð ár í Bandaríkjunum
„Ég giftist Sigurði Frey Björnssyni sumarið 1991 og um haustið fórum við í nám til Bandaríkjanna. Hann fór að læra kvikmyndagerð og ég fór í söngnám. Ég sótti tíma hjá óperudívu í San Francisco sem kenndi Belcanto söngtækni. Ég lauk BA prófi í söng 1994 frá Mills College.
Við Sigurður áttum saman góð ár í Bandaríkjunum og þar eignuðumst við dætur okkar þær, Brynhildi f. 1997 og tvíburana, Önnu Pálínu og Ólöfu Pálínu f. 2000. Árið 2005 héldum við fjölskyldan heim til Íslands, við vildum ala dætur okkar upp hér heima.“
Þetta eru einstök lífsgæði
„Það var stutt í náttúruna í Garðbænum í vetrarhögum æsku minnar. Mosfellsbær minnir mig á æskuslóðirnar, sveit í bæ, en hingað fluttum við fjölskyldan árið 2006.
Það eru ómetanleg þessi náttúrutengsl í nærumhverfinu, þetta eru einstök lífsgæði sem ekki allir búa við. Ég var ekki flutt inn þegar ég var farin að skipta mér af umhverfismálum í bæjarfélaginu. Stóð meðal annarra fyrir því að stofna Varmársamtökin og var formaður þeirra fyrstu árin.
Við Sigurður lögðum okkur fram í að ferðast mikið innanlands með dætrum okkar. Við vorum í mosfellskum fjölskyldugönguhóp sem gekk á milli fjallaskála á hinum ýmsu stöðum á landinu. Stórfjölskylda mín er mikið í hestamennsku og við höfum farið í margar fjölskylduhestaferðir með þeim. Mikið sem ég er þakklát þeim fyrir þær ferðir.
Leiðir okkar Sigurðar skildu árið 2018.“
Krílasálmar fyrir foreldra og börn
Ástríða Berglindar liggur í að miðla tónlist og náttúruupplifun í samfélagi okkar, þjóðararfi, menningu, dýralífi og flóru Íslands. Hún hefur kennt mikið í gegnum tíðina, verið með barnakóra í kirkjum og krílasálma fyrir foreldra og ungbörn.
Einnig hefur hún verið með tónlistarleikhús fyrir börn í Kramhúsinu, haldið námskeið í tónlist og skapandi hreyfingu á fjölmörgum leikskólum. Hún kenndi tónmennt í Ísaksskóla og tónlist í Waldorfskólanum Lækjabotnum. Eins hefur hún kennt börnum í alþjóðadeild Landakotsskóla.
Í Mosfellsbæ kenndi hún í yngri deild Lágafellsskóla, þar sá hún tækifærin í umhverfinu, stutt var í fjöruna og út á tún. Berglind lagði sig fram við að efla tengslin við nærsamfélagið með því að láta börnin syngja m.a. fyrir eldri borgara á Eir, heimilisfólkið á Skálatúni og vélavini á Blikastöðum.
Tækifærin liggja í náttúrutengingunni
„Í LHÍ öðlaðist ég sýn, að upplifun, náttúra og listir eru þeir hornsteinar sem ég vil fylgja í aðkomu minni að námi annarra. Ég vil valdefla nemendur mína, efla sjálfstraust þeirra, gefa þeim hvatningu, innblástur og tengsl við jörðina.
Tækifærin til að mennta og efla ungviðið hér á landi liggja að mínu mati í náttúrutengingunni sem við höfum aðgang að í okkar nærumhverfi,“ segir Berlind og brosir.
Úr varð fimm mánaða dvöl
„Ævintýrin elta mig, í ársbyrjun 2020 heimsótti ég bróðurdóttur mína til Marokkó, þar ætlaði ég að dvelja í einn mánuð, en örlögin réðu því að úr varð fimm mánaða dvöl. Í Marokkó býr einstakt hagleiksfólk sem er í mikilli snertingu við hringrás lífsins. Þar bauðst mér starf í alþjóðlegum Waldorfsskóla og ég var yfir leikskóladeild skólans.
Í dag kenni ég tónlist, handverk og myndmennt í Barnaskóla Hjallastefnunnar, í Öskjuhlíð og Nauthólsvík, þar er stutt í útiævintýri. Ég rek líka mitt eigið fyrirtæki og býð upp á ýmis námskeið og ævintýri.“
Kannski ég gerist náttúruprestur
„Nú er ég komin á þann stað í ljóðinu forðum, sem er mér svo minnisstætt. Hér er seinni ljóðlínan. „En „mömmu“ ég gæfi mín ljúfustu ljóð, hún leiðir mig verndar og er mér svo góð.“
Ég er farin að semja lög um móður jörð og ætla að halda því áfram. Að koma með boðskap með hvatningu til sjálfbærni og að bera virðingu fyrir landinu okkar. Kannski tek ég upp nýtt starfsheiti og gerist bara náttúruprestur,“ segir Berglind og brosir sínu fallega brosi er við kveðjumst.