Gaman saman í sumar
Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu eftir þennan vægast sagt sérkennilega vetur sem einkennst hefur af vindi, verkföllum og veiru.
Hann hefur að mörgu leyti verið erfiður en um leið lærdómsríkur og jafnvel fært okkur enn nær kjarna þess sem skiptir máli í lífinu.
Samvera mikilvæg
Margir hafa verið óvenju mikið með fjölskyldumeðlimum á síðustu mánuðum og þá hefur oft reynt á lausnamiðaða hugsun og þrautseigju og jákvætt viðhorf sjaldan verið mikilvægara. Lífið er þó óðum að færast í eðlilegt horf og við skulum sannarlega njóta þess að vera með fjölskyldu og vinum í sumar. Heimsækjum fólkið okkar, tölum saman, veltum upp hugmyndum, skiptumst málefnalega á skoðunum, gefum af okkur, prófum eitthvað nýtt, spilum, leikum okkur, hlökkum til og hlæjum dátt.
Hreyfing og útivist
Sumarið er svo sannarlega tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og vonandi hafa flestir tök á því að ferðast innanlands og njóta alls þess sem fallega landið okkar hefur upp á að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar, förum út að ganga með fjölskyldunni, hjólum, hlaupum, förum á línuskauta og/eða hjólabretti – hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir.
Hvetjum ykkur sérstaklega til að nýta glænýjan heilsársratleik sem liggur úr Álafosskvos og um Reykjalundarskóg. Ratleikurinn er unninn í samvinnu Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ, Ferðafélags Íslands og FMOS og er markmiðið með honum að fá alla aldurshópa út til að hreyfa sig í dásamlegu umhverfi og njóta samvista með öðrum #mosoratleikur
Munum eftir hollustunni
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, drekkum vatn, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæðahráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.
Sofum nóg
Þótt það verði gaman í sumar þá þurfum við að muna að svefn er öllum manneskjum mikilvægur. Hann veitir okkur hvíld, endurnærir líkamann og endurnýjar orkuna sem gefur okkur kraft til að takast á við dagsins gleði og amstur. Svefn styrkir jafnframt ónæmiskerfið og hefur einfaldlega áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti okkar við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði almennt.
Við vonum að þið eigið dásamlegt sumar fyrir höndum og hlökkum til að hitta ykkur í haust. Þá verður blásið til Heilsudagsins í Mosfellsbæ, sem við frestuðum í vor, lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar „Gulrótin“ verður veitt og ótalmargt fleira skemmtilegt og spennandi.
Þökkum fyrir einstakt samstarf í vetur frábæru Mosfellingar – höfum það gaman saman í sumar!
Ólöf Kristín Sívertsen,
lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ