Samvinna

Heilsumolar_Gaua_19des

Ég er ekki pólitískur. Ég veit ekki hvort ég myndi passa inn í neinn flokk þar sem ég er annars vegar á þeirri skoðun að við sem einstaklingar berum mikla ábyrgð á okkur sjálfum og hins vegar á þeirri skoðun að við sem samfélag eigum að hlúa á þeim sem þurfa á því að halda.

Mér finnst þetta eigi að haldast í hendur. Ég vil sjá sterka og sjálfstæða einstaklinga hugsa um heildina, samfélagið. Hegða sér þannig að þeir séu fyrst og fremst að gera hluti sem gagnist öðrum. Ekki bara þeim sjálfum. Svona eins og Hanna Sím hugsar fyrst og fremst um fótboltann í Aftureldingu og kemur hlutum í framkvæmd sem gagnast félaginu og fjöldanum.

Á sama hátt vil ég að samfélagið gefi einstaklingnum frelsi til þess að blómstra og hvetji hann til dáða um leið og það passar upp á okkur öll, sérstaklega þá sem minna mega sín. Ef þessar forsendur eru til staðar eru okkur allar leiðir færar.

Opinn hugur og vitund um að við erum sterkari saman er annað sem mér finnst mikilvægt. Ég elska verkefni, sjálfboðaliða eða launuð, sem ganga út á að tengja fólk og samfélög saman. Búa til eitthvað stærra og sterkara saman en við gætum í sitt hvoru lagi.

Akkúrat núna, í þessari viku eru íþróttafélögin Afturelding og Liverpool F.C. saman í því verkefni að styrkja ungan Mosfelling sem þarf á stuðningi að halda. Félögin eru búin að vinna saman í 10 ár og þrátt fyrir að vera afar ólík í stærð og uppbyggingu þá ná þau vel saman – eða öllu heldur einstaklingarnir sem eiga í samskiptum fyrir hönd félaganna. Eitt af því sem ég er að vinna með núna er að tengja saman aðila í Mosfellsbæ sem vita lítið hver af öðrum, en gætu gert magnaða hluti saman.

Gleðileg jól!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. desember 2019