Tækifærin eru óteljandi
Sóley Rut Jóhannsdóttir ætlaði sér alltaf að verða dýralæknir en hætti við og fór í Byggingatækniskólann í Reykjavík í húsgagna- og húsasmíði. Hún er nú með tvö sveinspróf í hendi aðeins 26 ára gömul og lætur ekki staðar numið þar því hún byrjaði í meistaranámi nú í haust.
Hún segir að iðngreinarnar henti jafnt konum sem körlum og að atvinnutækifærin séu óteljandi.
Sóley Rut er fædd í Reykjavík 10. mars 1993. Foreldrar hennar eru þau Katrín María Káradóttir fagstjóri og dósent í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og Jóhann Bjarki Júlíusson flugvirki hjá British Airways.
Sóley Rut á eina systur, Salvöru Lóu Stephensen, fædda 2017. Faðir hennar er Sigurður Sverrir Stephensen barnahjartalæknir.
Flutti til Parísar
„Ég ólst upp að mestu leyti í miðbæ Reykjavíkur hjá mömmu minni en foreldrar mínir slitu samvistum þegar ég var á öðru ári. Árið 2000 fluttum við mæðgur til Parísar þar sem mamma fór í nám og þar bjuggum við í 5 ár.
Við mamma komum alltaf heim til Íslands á sumrin því hún starfaði sem fjallaleiðsögumaður. Ég var þá mikið hjá afa og ömmu og hjá vinafólki og á því góðan hóp af aukaforeldrum sem mér þykir ákaflega vænt um. Þar á meðal er guðmóðir mín, Kristín Sólveig Kristjánsdóttir, en börn hennar urðu svolítið eins og systkini mín.
Faðir minn, Bjarki, og Eva eiginkona hans hafa búið erlendis meira og minna alla mína ævi en ég hef líka verið mikið hjá þeim.“
Græddi margt á þessum árum
„Árin í París voru fyrir mér mikil lífsreynsla og ég kunni alveg ofboðslega vel við mig þarna. Ég var samt alltaf í góðu sambandi við gömlu vini mína úr Austurbæjarskóla. Það var ekki fyrr en ég varð unglingur sem ég fékk fyrst heimþrá og fljótlega eftir það fluttum við heim.
Ég hef oft hugsað um það hvernig líf mitt hefði orðið ef við hefðum ekki flutt aftur heim, en ég sé alls ekki eftir neinu. Ég græddi margt á árunum þarna úti, nýtt tungumál, nýja menningu, kynntist fólki og svo á maður svo margar góðar minningar sem erfitt er að lýsa með orðum.“
Þetta var eins og í bíómynd
„Af æskuminningunum er af mörgu að taka, veiði við Brúará og stundirnar í bústaðnum hjá ömmu og afa. Þau voru miklir veiðimenn og sáu um lítið veiðihús þar. Ég fékk að skrifa aflatölur í bækur og segja frá því sem gerst hafði yfir daginn. Þau eiga allar þessar bækur ennþá.
Ég held mikið upp á mótorhjólaferð sem ég fór í með pabba og Evu en það var alveg nýr heimur fyrir mig að sitja aftan á mótorhjóli. Við gistum í hjólahýsagarði með fullt af mótorhjólafólki, þetta var eins og í bíómynd,“ segir Sóley Rut og brosir. „Þau fóru líka með mig til Þýskalands til að læra á Trial mótorhjól, það var mjög skemmtilegt.“
Besta gjöf sem ég hef fengið
„Ég man þegar ég fór með mömmu á tískusýningu hjá Christian Dior og John Galliano á Champs-Elysées en hún fór til að sýna mér afrakstur vinnu sinnar en hún vann fyrir tískuhúsin. Ég man hvað ég var stolt af henni.
Þegar ég var níu ára þá var ég búin að fara á óteljandi tískusýningar, taka þátt í að sýna og svo sat maður fyrir í myndatökum fyrir tískublöð, maður hrærðist í þessum heimi.
Besta minning mín er samt án efa dagurinn þegar mamma sótti mig í skólann og kom mér á óvart með bestu gjöf sem ég hef fengið á ævinni. Þegar við komum heim þá beið mín hundabúr með hvolpi í. Vivienne varð órjúfanlegur partur af okkar tveggja manna fjölskyldu en hún veitti okkur stanslausa gleði í 13 ár. Besti hundur í heimi og ég hef ekki ennþá fundið neitt sem nær að fylla hennar pláss í hjarta mínu.“
Keppti á tveimur mótum
„Við bjuggum í miðbænum eftir að við fluttum heim og ég bjó þar fram yfir útskrift úr menntaskóla en þá flutti ég að heiman. Ég var eitt ár í Menntaskólanum í Reykjavík en færði mig svo yfir í Menntaskólann við Hamrahlíð og útskrifaðist þaðan. Ég kynntist módelfitness á síðasta árinu mínu í MH og keppti á tveimur mótum. Með skólanum vann ég á McDonalds´s og á skemmtistöðum í bænum.“
Innréttuð með tilliti til nýtingar
„Planið alveg frá því að ég var barn var að læra dýralækningar en á síðustu metrunum í skólanum fóru einhverjar efasemdir af stað og ég hætti við. Ég fór að vinna í fiski svona til að prófa eitthvað nýtt, en fór svo að hugsa um einkaþjálfaranám eða innanhússhönnun.
Mamma fann að ég var eitthvað áttavillt þegar ég var farin að skoða skóla í Ástralíu. Hún stakk upp á að ég færi í húsgagnasmíði þar sem ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á smáhúsum sem voru innréttuð á margvíslegan máta, sérstaklega með tilliti til nýtingar á plássi.
Ég byrjaði í Byggingatækniskólanum 2012 og strax eftir fyrstu önnina var ég búin að skrá mig á húsasmíðabrautina líka. Ég vann sem barþjónn með skólanum og gerði það þangað til ég fór á samning í húsasmíði.“
Bættum við öðrum hundi
„Ég flutti í Mosfellsbæ og ári eftir að ég flutti kynntist ég Stefáni Sindra Ragnarssyni, múrara. Við keyptum okkur lítið raðhús nú í byrjun árs og erum alveg ofboðslega ánægð hérna.
Ég var nýbúin að fá mér hvolp þegar við Stefán kynntumst en við ákváðum síðan að bæta við öðrum hundi sem kom til okkar í sumar. Tíkurnar eru hálfsystur og það er bara eins og þær hafi verið saman alla ævi.“
Vinnutíminn gaf mér frelsi
„Ég kláraði sveinspróf í húsasmíði en hætti svo að vinna við smíðar. Ég var orðin frekar leið á lífinu og fór aftur í barstörfin og vinnutíminn gaf mér frelsi til að tjasla mér saman andlega.
Eftir nokkra mánuði var mér farið að líða betur og vinkonur mínar og kærastinn hvöttu mig til að sækja um annað smíðastarf og láta slag standa. Ég gerði það og er óendalega þakklát fyrir þá ákvörðun. Fyrirtækið sem ég starfa hjá í dag heitir Afltak, og er hér í Mosfellsbæ. Frábært fyrirtæki í alla staði sem heldur vel utan um sitt fólk. Í dag eru óteljandi atvinnutækifæri fyrir iðnmenntað fólk og ég hvet unga fólkið til að kynna sér þetta nám.
Fyrir nokkrum vikum fékk ég sveinsbréfið í húsgagnasmíði og svo byrjaði ég í Meistaraskólanum núna í september svo það er því lítill tími fyrir áhugamál þessi misserin nema kannski í félagsstörfum fyrir Félag fagkvenna en það er félag fyrir konur sem starfa í karllægum iðngreinum,“ segir þessi harðduglega kona að lokum er við kveðjumst.
Mosfellingurinn 24. október 2019
ruth@mosfellingur.is