Jákvæðnin hefur fleytt mér langt
Stefán Haukur tók á móti mér á heimili sínu í Mosfellsdalnum. Snjónum hafði kyngt niður þennan dag og það var fallegt um að litast innan um útikertin sem búið var að kveikja á í garðinum.
Þegar inn var komið mátti sjá hvert sem litið var fallega útskorna hluti og húsgögn, meistaraverk húsbóndans. Stefán byrjaði ungur að skera út og var fljótur að ná tökum á tækninni en allt byrjaði þetta með fjögurra járna setti sem faðir hans hafði keypt fyrir móður hans.
Stefán Haukur er fæddur í Reykjavík 16. febrúar 1976. Foreldrar hans eru þau Helga Kristjánsdóttir fyrrv. garðyrkjubóndi og hannyrðakona og Erlingur Ólafsson fyrrv. garðyrkjubóndi og bílaáhugamaður.
Stefán er yngstur fimm systkina en þau eru Hanna f. 1962, Einar Ólafur f. 1966, Erlingur f. 1970 og Ólöf Ágústa f. 1972.
Hundurinn elti mig hvert sem ég fór
„Ég er alinn upp í Reykjadal í Mosfellsdal og það var mjög gaman að alast hér upp. Maður var samt pínu einangraður frá vinunum en þá hjólaði maður bara niður í bæ til að hitta þá. Það var ýmislegt brallað en þó mest utandyra enda engir snjallsímar á þessum tíma.
Ég notaði fjöllin hér í kring mikið og svo var ég iðulega einhvers staðar að þvælast um á hjólinu mínu og heimilishundurinn elti mig hvert sem ég fór. Það var líka nóg af lækjarlontu í ánum og ég fór oft að veiða.
Árstíðirnar skiptu engu enda alltaf hægt að treysta á fjöllin, nægur snjór og við krakkarnir oft uppi í fjalli með skíði, snjóþotur og svo grófum við líka snjóhús.“
Hafði alltaf nóg fyrir stafni
„Foreldrar mínir ráku garðyrkjustöð og það var iðulega nóg að gera heima fyrir og við systkinin byrjuðum ung að hjálpa til við garðyrkjustörfin. Ég gekk í Varmárskóla og eftir útskrift úr Gaggó Mos fór ég í Fjölbraut í Breiðholti.
Ég hafði snemma mikinn áhuga á íþróttum, æfði skíði með KR í nokkur ár og frjálsar íþróttir með Aftureldingu á sumrin. Frá 11–22 ára aldurs æfði ég lyftingar svo maður hafði alltaf nóg fyrir stafni.“
Keypti lítið hús í Dalnum
Stefán kynntist eiginkonu sinni, Guðnýju Brynjólfsdóttur félagsliða, árið 1998. Þau kynntust í líkamsræktarstöð þar sem þau voru bæði að æfa. Ári seinna giftu þau sig og frumburðurinn, Kristófer Örn, leit dagsins ljós árið 2000. Sex árum síðar fæddist þeim dóttir, Sara Ýr.
Um 18 ára aldur festi Stefán kaup á Víðibakka, litlu húsi við hliðina á garðyrkjustöð foreldra hans og þar hefur Stefán og fjölskylda hans búið allar götur síðan.
Sótti um vegna áhuga á reiðhjólum
„Um tvítugt hóf ég störf í Grænu höndinni í Hveragerði og þar starfaði ég í tvö ár. Síðan tóku við störf í garðyrkjustöðinni hjá foreldrum mínum og ég starfaði þar þangað til þau hættu rekstri árið 2012.
Ég ákvað svo að breyta til og vegna áhuga míns á reiðhjólum sótti ég um hjá reiðhjólaversluninni Erninum. Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður og var síðan fastráðinn. Í dag sé ég fyrst og fremst um reiðhjólaverkstæðið ásamt því að sinna öðrum störfum.
Árin í Erninum hafa verið ótrúlega viðburðarík, ég hef kynnst mörgu skemmtilegu fólki og er hreinlega alltaf að læra eitthvað nýtt.“
Hjólar í vinnuna hvernig sem viðrar
Eftir að Stefán byrjaði í vinnu hjá Erninum kviknaði enn meiri áhugi á hjólreiðum og keppnishjólreiðum. Hann hjólar alla daga í vinnuna hvernig sem viðrar, 36 km.
Hann skráði sig í Hjólreiðafélag Reykjavíkur og byrjaði að æfa markvisst.Stefán er mikill keppnismaður og afrekaskráin er orðin löng. Hann hefur m.a. keppt í hópstarti, fjallahjólreiðum og tímatöku með góðum árangri og var meðal annars í úrtaki fyrir fyrsta landsliðið í hjólreiðum.
Stefán er félagi í Hjóladeild Aftureldingar en deildin var stofnuð í apríl 2018. Hann fékk þann þann heiður á dögunum að vera sá fyrsti í deildinni sem tilnefndur er til kjörs íþróttamanns Mosfellsbæjar.
Hef alla tíð ögrað sjálfum mér
„Um 11 ára aldurinn komst ég í tréskurðarjárn sem móðir mín átti. Þetta var fjögurra járna sett sem faðir minn hafði fest kaup á handa móður minni sem ætlaði að byrja að skera út. Ég fór að æfa mig og kolféll fyrir greininni því ég náði strax góðum tökum á skurðinum.
Þegar ég var 15 ára byrjaði ég í námi í Trélistaskóla Hannesar Flosasonar sem samansettur var af 6 stigum. Ég kláraði skólann á tveimur árum og bjó svo til 7. stigið með Hannesi. Hann var frábær kennari og hjá honum lærði ég öll undirstöðuatriðin. Framhaldið var svo undir mér komið, hversu langt ég vildi ná, en ég hef alla tíð ögrað sjálfum mér til að ná lengra og lengra í greininni í stað þess að staðna.“
Verkin skipta hundruðum
Stefán hefur unnið verk fyrir marga og skipta þau hundruðum bæði hér á landi og erlendis. Hann á til að mynda marga skúlptúra á veitingastaðnum Þremur frökkum og eins skreytti hann kassa í Úlfljótsvatnskirkju sem geymir Guðbrandsbiblíu. Hann hefur verið að grafa í bein og járn og er frumkvöðull í „scrimshaw“ sem er eins konar tattú sem sett er á beinin.
Þessa stundina er Stefán að skera út kassa undir viskíflöskur og nú þegar hefur verið fjallað um þá í skosku bloggi um víniðnaðinn. Hann byrjaði að kenna tréskurð 18 ára og hefur m.a. leiðbeint fólki á Eirhömrum í Mosfellsbæ frá þeim tíma. Stefán heldur úti síðu á netinu þar sem hægt er að skoða verk hans, www.stefan.123.is
Hvarflar aldrei að mér að geta ekki klárað
„Áhugi minn á tréskurði hefur aldrei dvínað, ég hef verið að skera út með hléum í 32 ár og er jafnvígur á lágmyndir sem og þrívídd. Ég komst snemma að því að þegar ég byrjaði á flóknu verki hvarflaði aldrei að mér að ég gæti ekki klárað það. Þegar hugmynd að verki er komið í hendurnar á mér er ég yfirleitt búin að fara yfir tæknina hvernig ég ætla vinna verkið frá byrjun til enda áður en ég byrja á því.
Ég á að baki fjöldann allan af svefnlausum nóttum þar sem ég er beinlínis að skera út í höfðinu, svona er nú áráttan,“ segir Stefán brosandi og bætir svo við, „en ég hef svo gaman af þessu.“
„Gegnum tíðina hefur tréskurðurinn oft stangast á við önnur áhugamál en ég hef alltaf passað að rækta sjálfan mig. Ég hef alla tíð haft jákvæðnina að leiðarljósi og hún hefur fleytt mér langt.“
Mosfellingurinn 31. janúar 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs