Blackbox opnar í Háholti í vor
Í vor opnar Blackbox Pizzeria í hjarta Mosfellsbæjar þar sem veitingastaðurinn Hvíti Riddarinn hefur verið í mörg ár.
„Þetta er fullkomin staðsetning fyrir næsta Blackbox-stað í fjölskylduvænum bæ sem telur rúmlega ellefu þúsund íbúa og mikil vöntun á skemmtilegum veitingastöðum,“ segir Jón Gunnar Geirdal einn eigenda staðarins.
„Þessi nýi staður verður umkringdur frábærum nágrönnum en hér sækja sækja Mosfellingar sína helstu þjónustu. Hér höfum við Krónuna, Mosfellsbakarí, apótek, fiskbúð og ísbúð og einnig örstutt í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar. Það er líka spennandi að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem er í gangi hérna í miðbænum. Við sjáum mikla möguleika og hlökkum til að kynnast Mosfellingum.
Við munum bjóða upp á boltagláp og góðar pizzur. Sama módel og við erum með í Borgartúninu, ódýr bjór og léttvín og stærstu viðburðir á skjánum.“
Eldbakaðar pizzur á tveimur mínútum
Blackbox opnaði sinn fyrsta stað í janúar í fyrra í Borgartúni 26 og hefur notið mikilla vinsælda en Blackbox afgreiðir eldsnöggar, eldbakaðar, súrdeigsbotnspítsur með hágæða hráefnum, byltingarkenndur snúningsofninn nær gífurlegum hita og eldbakar pítsuna á aðeins tveimur mínútum.
Eigendur Blackbox eru stofnendur staðarins, Karl Viggó Vigfússon og Jón Gunnar Geirdal, ásamt Jóhannesi Stefánssyni og fjölskyldu í Múlakaffi og Jóhannesi Ásbjörnssyni en saman eiga þeir tveir síðastnefndu Gleðipinna, rekstraraðila Keiluhallarinnar og Hamborgarafabrikkunnar.
Athafnamennirnir fengu afhenta lykla af staðnum í vikunni og stefna á þónokkrar framkvæmdir og breytingar áður en dyrnar verða opnaðar á nýjum og fjölskylduvænum stað í Mosfellsbæ. „Við stefnum á að opna í mars ef allt gengur upp,“ segir Jón Gunnar lokum.