Áramótaheit!
Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar. Árið 2019 er gengið í garð og byrjar dásamlega.
Það er ekkert betra en að fara út að skokka í 8 stiga hita í janúar en ég var einmitt að koma af minni fyrstu hlaupahópsæfingu hjá henni Höllu Karen í World Class.
Eru allir búnir að setja sér áramótheit? Eða markmið fyrir árið 2019? Hver kannast ekki við að gefast upp á þeim? Ég hef alla vega gert það nokkrum sinnum og hef ætlað mér allt of mikið og sprungið. Ég er þó hér enn og er alltaf að læra, maður getur nefnilega alltaf gert betur. Mig langar til að deila með ykkur nokkrum punktum varðandi hreyfingu í von um að það veiti ykkur hvatningu á nýju ári.
1. Hugsum um hreyfingu til langtíma ekki skammtíma – við þurfum ekki að sigra heiminn í janúar. Byrjum smátt og aukum álagið jafnt og þétt yfir árið. Ef við ætlum okkur um of eru meiri líkur á að við gefumst upp.
2. Veldu hreyfingu sem þér þykir skemmtileg og vertu dugleg/ur að prófa nýja hluti til að finna hvað það er sem þér þykir skemmtilegt. Það er ýmislegt sem flokkast undir hreyfingu eins og að ganga, dansa, spila fótbolta, stunda garðyrkju og hjóla til vinnu. Þegar þú ert að koma þér í gang er mikilvægt að velja eitthvað sem er skemmtilegt svo hvatinn verði meiri.
3. Öll hreyfing er af hinu góða og við þurfum ekki alltaf að sprengja okkur á hverri æfingu. Það er mikilvægt og gott að hugsa „ætla ég að vera íþróttamaður í 10 ár eða 40 ár?“
4. Skiptu hreyfingunni þinni upp. Það er hægt að hreyfa sig í 30 mín á dag í nokkrum pörtum af degi, sem dæmi 10 mín ganga til vinnu, smá göngutúr í hádeginu og svo að vinnu lokinni.
5. Ef þú ert óörugg/ur í líkamsræktarstöð, fáðu þér þjálfara eða bókaðu tíma hjá þjálfara t.d. Ölfu eða Ella í tækjakennslu. Við erum hér til þess að hjálpa ykkur.
6. Göngutúr er ágætis hreyfing sem gerir helling fyrir líkama og sál. Hann þarf ekki að vera langur heldur er það að komast í návígi við náttúruna það sem skiptir sköpum. Reyndu þó að labba rösklega eða auka hraðann á ákveðnum köflum, hægt og bítandi eykst þolið.
7. Fáðu vin/vinkonu með þér í lið, það er hvatning að mæla sér mót við einhvern.
8. Skráðu þig í tíma, þá hefur þú tekið ákvörðun um að þú ætlir að mæta.
9. Verðlaunaðu sjálfa/n þig þegar þú stendur þig vel eða hefur náð settu markmiði.
Fögnum nýju ári með gleði og höfum gaman af þeirri hreyfingu sem við veljum okkur.
Berta Þórhalladóttir
Kennir tabata í World Class Mosó
á þriðjudögum og fimmtudögum kl: 18:20.