Kalli Tomm gefur út Oddaflug
Kalli Tomm var að senda frá sér sína aðra sólóplötu, Oddaflug.
Örlagagaldur, fyrsta sólóplata hans, kom út fyrir þremur árum og féll hún í afar góðan jarðveg bæði hjá hlustendum og gagnrýnendum. Aðspurður sagðist Kalli Tomm hafa hafist handa við gerð Oddaflugs fljótlega eftir útkomu fyrri plötu sinnar.
„Ég nýt krafta og hæfileika margra sömu listamanna sem komu við sögu á Örlagagaldri og má þar nefna Tryggva Hubner, Jóhann Helgason, Guðmund Jónsson og upptökustjóra minn, Ásmund Jóhannsson. Allir hafa þessir frábæru listamenn reynst mér einstaklega vel eins og allir sem að plötunni koma með mér.
Mosfellingar í aðalhlutverkum
„Einnig er gaman að geta þess að þrjár mosfellskar söngkonur koma við sögu á plötunni. Það eru mæðgurnar Íris Hólm Jónsdóttir og Ingibjörg Hólm Einarsdóttir ásamt dóttur minni, Birnu Karls. Textahöfundar eru þrír og einnig allir Mosfellingar. Það eru Bjarki Bjarnason sem hefur unnið mikið með mér á báðum plötunum, vinkona mín Hjördís Kvaran Einarsdóttir og kona mín, Líney Ólafsdóttir. Hönnun umslags og textabókar er einnig í höndum rótgróins Mosfellings, Péturs Fjalars Baldvinssonar.“ Kalli Tomm sagðist að lokum einstaklega ánægður með fyrstu viðbrögð við plötunni og ekki síst hversu sveitungar hans hefðu tekið henni vel.