Bestu hrútarnir í sveitinni

Efstu fjórir í flokki veturgamalla hrúta. Hrútar frá Kiðafelli, Miðdal, Mora­stöðum og Reykjum. Nánar um úrslit á www.mosfellingur.is

Efstu fjórir í flokki veturgamalla hrúta. Guðbrandur  Sigurbergsson með Sprengisand frá Kiðafelli, Hafþór Finnbogason með Tralla frá Miðdal, Orri Snorrason með Öl frá Morastöðum og Ingibjörg Ásta Guðmundsdóttir með hrútinn Skeggja frá Reykjum.

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós fór fram mánudaginn 15. október. Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Keppt var í nokkrum flokkum og fengu bændur stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta.
Hrúturinn Ölur bar sigur úr býtum en hann er í eigu Orra og Maríu á Morastöðum sem hlutu því hinn eftirsótta hreppaskjöld. Í umsögn dómara er Ölur sagður jafnbestur og með þykkasta bakvöðvann. Að sögn Maríu er galdurinn að rækta hrútana vel og setja einungis þá bestu undir, þá endar með því að maður uppsker. „Það skiptir mjög miklu máli að eiga góða hrúta, enda eiga þeir flestu afkvæmin,“ segir María.

Úrslit hrútasýningarinnar:

lamb

Kollóttir lambhrútar í efstu sætunum allir frá Kiðafelli.

Kollóttir lambhrútar
1. sæti – Lamb nr. 18 frá Kiðafelli. 87,5 stig. Gríðargóður og vænn, 67 kg með 32 mm bakvöðva.
2. sæti – Lamb nr. 3 frá Kiðafelli. 85 stig. Vænn hrútur.
3. sæti – Lamb nr. 14 frá Kiðafelli. 87 stig. Vænn hrútur.

Mislitir lambhrútar
1. sæti – Svartur hrútur frá Morastöðum. 85 stig. Lítill en vel gerður og með bestu læraholdin.
2. sæti – Mórauður hrútur frá Þórunni á Hraðastöðum. 85,5 stig. Fallegur hrútur með góðan bakvöðva.
3. sæti – Svartflekkóttur hrútur frá Reyni Hólm í Víði. 84,5 stig. Vænn hrútur.

Hyrndir hvítir lambhrútar
1. sæti – Lamb nr. 885 frá Morastöðum. 86,5 stig. Holdaköggull og pakkaður af kjöti.
2. sæti – Lamb nr. 328 frá Kiðafelli. 86,5 stig. Jafngóður hrútur fyrir alla þætti.
3. sæti – Lamb nr. 9 frá Kiðafelli. 86 stig. Vænn 64 kg hrútur, langur með góða ull.
4. sæti – Lamb nr. 442 frá Miðdal. 85,5 stig.

Veturgamlir hrútar
1. sæti – Ölur frá Morastöðum. Hvítur, hyrndur. 85 stig. Jafnbestur og með þykkasta bakvöðvann.
2. sæti – Tralli frá Miðdal. Hvítur, kollóttur. 86 stig. Þéttur hrútur með góð læri og malir.
3. sæti – Skeggi frá Reykjum. Grár, hyrndur. 85 stig. Jafnöflugur hrútur með góðar malir og læri.
4. sæti – Sprengisandur frá Kiðafelli. Svartur, hyrndur. 85,5 stig.

Gaman er að segja frá því að sigurvegarinn í Veturgamla flokknum, Ölur frá Morastöðum, er faðir lambs nr 885 frá Morastöðum sem stóð efstur í flokki hyrndra hvítra lambhrúta.