Heilsueflandi göngustígar

Heilsumolar_Gaua_27

Göngustígurinn meðfram Varmánni er í miklu uppáhaldi hjá mér. Sérstaklega hlutinn í mínu hverfi, fyrir ofan Dælustöðina. Ég geng þann stíg daglega, suma daga oftar. Ég velti því fyrir mér hver á stíginn eða ber ábyrgð á honum vegna þess að honum hefur ekki verið sinnt mjög lengi. Í raun er hann að hverfa. Á köflum er hann svo mjór að feitur köttur gæti ekki gengið eftir honum. Mölin er nánast öll farin af stígnum, í staðinn marka rótarkerfi og steinar þessa mögnuð gönguleið. Þetta er svo sem ekkert vandamál fyrir mig persónulega. Ég er sprækur og hef gaman bæði af áskorunum og því að hreyfa mig. Og maður fær sannarlega fjölbreytta hreyfingu þegar maður labbar þessa leið í dag.

Ég hef meiri áhyggjur af fólki sem er minna hreyfanlegt. Fólki sem gjarna myndi vilja ganga meðfram Varmánni, hlusta á spriklandi vatnið, finna lyktina af gróðrinum og horfa á trén, en er ekki líkamlega í stakk búið til að klöngrast yfir rætur og steina eða feta einstigin sem feiti kötturinn leggur ekki í.

Að mínu mati er fátt eins heilsueflandi og göngutúrar í náttúrunni og sem flestir ættu að eiga möguleika á að nýta sér þá göngustíga sem lagðir hafa verið í Mosfellsbæ. Ég veit að nokkrir af nágrönnum mínum eru hættir að ganga þessa leið af ofangreindum ástæðum og það er ekki gott. Ef sá sem ber ábyrgð á stígnum les þessar línur hvet ég þann sama til að rjúka í að koma honum í lag fyrir veturinn og legga um leið sitt af mörkum til þess að heilsuefla bæinn okkar.

Um leið langar mig að hvetja þá alla sem lesa þennan mola að setja sér daglegt hreyfimarkmið til þess að koma nauðsynlegri og upplyftandi hreyfingu inn í lífið. Ganga, æfingar, garðvinna, leikir, viðhald – öll hreyfing telur.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. september 2018