Systur gefa saman út barnabók

asdf

Ásrún og Sigríður Magnúsdætur með einni sögupersónunni úr bókinni. 

Systurnar Ásrún Magnúsdóttir og Sigríður Magnúsdóttir eru fæddar og uppaldar í Borgarnesi en búa nú báðar í Mosfellsbæ. Þær segjast vera mjög samrýmdar þó svo að önnur búi í rauða hverfinu en hin í því bláa.
Þær systur eru um þessar mundir að gefa út barnabókina Korkusögur en þetta er þeirra fyrsta bók og fjallar hún um stúlku sem heitir Korka. „Sigríður er mjög fær listakona en ég lunknari við textasmíðar. Okkur fannst því upplagt að leiða saman listræna hæfileika okkar og úr var bókin Korkusögur sem skrifuð er og skreytt af okkur systum,“ segir Ásrún.

Korka er lífsglöð stúlka
Báðar eru þær með BA-gráðu í ensku og stefna báðar á að klára MA-nám í enskukennslu á framhaldsskólastigi í febrúar á næsta ári. Einnig eru áhugamál þeirra áþekk og má þar til dæmis nefna hestamennsku og bókmenntir en þó eru hæfileikar þeirra mismunandi.
„Bókin fjallar um unga stúlku sem heitir Korka. Korka er mjög lífsglöð og á oft erfitt með að hemja fjörið innra með sér og lendir hún því í ýmsum ævintýrum þegar það tekur völdin. Eflaust eru einhverjir foreldrar sem kannast við slíkt en sögurnar í bókinni eru að miklu leyti byggðar á dóttur minni og skoplegum uppátækjum hennar,“ segir Sigríður.

Útgáfuhóf á laugardaginn
Bókin er gefin út af Bókabeitunni og tilheyrir seríu bóka sem kallast Ljósaserían. Í Ljósaseríunni eru bækur sem eru sniðnar að þörfum nýrra lesenda og kjörnar fyrir þá sem eru að æfa sig í lestri. Bækurnar eru misþungar en hafa allar þægilegt letur, rúmt línubil og eru fallega myndskreyttar. Börn á öllum aldri hafa gaman af þessum sögum. Bókin er nýkomin út og til að fagna því verður haldið útgáfuboð í Pennanum Eymundsson, Smáralind kl. 14:00 þann 8. september. Vona þær systur til að sjá sem flesta Mosfellinga til að fagna með þeim.