Viljum að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ

oddvitar_mosfellingur_haraldur

Kjósendur í Mosfellsbæ geta valið á milli átta framboða í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 26. maí. Í nýjasta tölublaði Mosfellings sitja oddvitar framboðanna fyrir svörum. Hér er á ferðinni oddviti Sjálfstæðismanna.

 

Nafn: Haraldur Sverrisson.

Aldur: 56 ára.

Gælunafn: Halli.

Starf: Bæjarstjóri.

Fjölskylduhagir:
Giftur Ragnheiði Gunnarsdóttur viðskiptafræðingi. Á þrjú börn: Steinunni Önnu 36 ára, Valgerði 26 ára og Sverri 17 ára. Svo eru komin þrjú barnabörn Áróra, Árni Hrafn og Ársól Ella.

Hvar býrðu?
Skálahlíð 46.

Hvað hefur þú búið lengi í Mosó?
Í 49 ár.

Hvað áttu marga vini á Facebook?
1.242 sýndist mér áðan.

Um hvað snúast kosningarnar 2018?
Að áfram verði best að búa í Mosfellsbæ. Við Sjálfstæðisfólk höfum haldið utan um stjórnartaumana hér í okkar góða samfélagi undanfarin ár. Á þeim tíma hefur bærinn okkar tekið miklum stakkaskiptum til hins betra á flestum sviðum. Kosningarnar snúast um það að halda áfram þessu góða starfi og til þess þurfum við Sjálfstæðisfólk að vera áfram forsvari fyrir framþróun bæjarins og velferð íbúanna.

Hver er merkasti Mosfellingurinn?
Halldór Kiljan Laxness.

Hvernig er kynjahlutfall og aldursdreifing á listanum ykkar?
9 konur og 9 karlar. Yngstur Unnar Karl Jónsson, 19 ára, og elstur Hafsteinn Pálsson, 65 ára.

Hefur þú komist í kast við lögin?
Mér hefur orðið það á að aka of hratt.

Er pólitík skemmtileg?
Oftast nær mjög skemmtileg og gefandi.

Uppáhaldsviðburður í Mosó?
Í túninu heima.

Hvað drekkur þú marga kaffibolla á dag?
Misjafnt, fer eftir vikudeginunum.

Fallegasti staður í Mosfellsbæ?
Útivistarsvæðið við Leiruvog.

Besti matur í Mosó?
Blik Bistro, frábær nýi matseðillinn þar og ekki skemmir útsýnið.

Eitthvað sem fólk veit ekki um þig?
Er kominn af listamönnum og kommúnistum.

Hverja tækir þú með þér á eyðieyju?
Björgunarsveitina Kyndil og skátana.

Hvað finnst þér vanta í Mosó?
Lifandi og skemmtilegan miðbæ sem reyndar er núna verið að vinna hörðum höndum að þessi misserin að verði að veruleika.

Síðasta SMS sem þú fékkst?
Frá kosningastjóranum um að ég ætti að hringja.

Hvað er markmiðið að ná mörgum inn í bæjarstjórn?
Sjálfstæðisflokkurinn er nú í meirihluta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar. Við stefnum ótrauð að því að svo verði áfram.

Með hverjum hugnast þér að starfa eftir kosningar?
Við Sjálfstæðisfólk getum unnið með öllum. Höfum verið í formlegu meirihlutasamstarfi við VG þrátt fyrir hreinan meirihluta okkar í bæjarstjórn. Auk þess höfum við verið í góðu samstarfi við aðra bæjarfulltrúa sem hafa viljað vera í samstarfi við okkur.

Spilar árangur flokksins á landsvísu rullu í Mosó?
Hef ekki mikla trú á því.

Af hverju ætti fólk að kjósa þinn lista?
Á lista Sjálfstæðisfólks í Mosfellsbæ er blanda af reynslumiklu fólki sem og fólki sem er að hefja sinn bæjarmálaferil. Ungt fólk í bland við eldra og konur jafnt sem karlar. Allt er þetta fólk sem brennur fyrir bæinn sinn og vill leggja sig allt fram um að gera frábæran bæ enn betri. Við munum vinna af heiðarleika og eljusemi fyrir alla Mosfellinga með gildin okkar góðu að leiðarljósi: Virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju.

—–

Kynning á framboðslista Sjálfstæðisflokksins – Töluverð endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins

Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ á Facebook