Vinningstillaga að aðkomutákni afhjúpuð
Bæjarráð ákvað á hátíðarfundi sínum í tilefni þess að 30 ár voru liðin frá því að Mosfellsbær fékk kaupstaðarréttindi að efna til hönnunarsamkeppni um aðkomutákn.
Aðkomutákninu er ætlað að vekja athygli á Mosfellsbæ og marka það svæði sem honum tilheyrir. Til stendur að vígja aðkomutáknið á bæjarhátíðinni Í túninu heima sem fram fer í lok ágúst. Alls bárust 34 tillögur að aðkomutákni og var keppnin unnin í samvinnu við Hönnunarmiðstöð Íslands.
Sækja í rótgróið merki Mosfellsbæjar
Höfundar vinningstillögunnar eru þau Anna Björg Sigurðardóttir arkitekt og Ari Þorleifsson byggingafræðingur.
Tillaga þeirra var afhjúpuð í Hlégarði þann 3. maí en í umsögn dómnefndar segir m.a. um vinningstillöguna að hún sé:
„Stílhrein og falleg tillaga sem sækir á óhlutbundinn hátt í náttúruna, ásamt því að sækja í rótgróið merki Mosfellsbæjar eftir Kristínu Þorkelsdóttur.
Áhugaverður skúlptúr sem vísar til þriggja innkomuleiða Mosfellsbæjar, þá þrjá staði sem fyrirhugað er að staðsetja merkið á og gefur möguleika á fjölbreytilegum útfærslum.“
Tillögurnar til sýnis í Bókasafninu
Næstu skref þessa verkefnis felast í vinnu Mosfellsbæjar með vinningshöfum við útfærslu hugmyndarinnar, eins og vinna við teikningar, undirbúningur framleiðslu aðkomutáknsins og finna aðkomutákninu endanlega staðsetningu.
Þá veitti dómnefndin þremur tillögum viðurkenningu en þær tillögur komu frá eftirtöldum aðilum:
• Gunnari Kára Oddssyni og Oddi Þ. Hermannssyni, landslagsarkitektum
• Elísabetu Hugrúnu Georgsdóttur, arkitekt
• Kristjáni Frey Einarssyni, grafískum hönnuði og Halldóru Eldjárn
Þær tillögur sem unnu til verðlauna eru nú til sýnis í Bókasafninu, þar með talið líkan af vinningstillögunni.
—–
Þrjár aðkomuleiðir
– Þrjár náttúruperlur
Hið nýja aðkomutákn er hugsað þannig að þrjár aðkomuleiðir Mosfellsbæjar megi tengja við þrjár náttúruperlur. Að sunnanverðu tekur Úlfarsfell á móti þér með grænum hlíðum sínum, að norðanverðu er það Leirvogsá og á Þingvallavegi er það Helgafell. Þessar þrjár náttúruperlur sem umvefja bæjarmörk Mosfellsbæjar eru í raun ákveðin tákn bæjarfélagsins og aðkomutákninu er ætlað að upphefja það.
Merki Mosfellsbæjar hefur verið tákn bæjarins frá árinu 1968. Merkið var hannað af Kristínu Þorkelsdóttur og er tilvísun í silfurs Egils Skallagrímssonar.
Höfundar vinningstillögunnar telja mikilvægt að merki Mosfellsbæjar verði hluti af aðkomutákninu, verði til þess að styrkja merkið og jafnvel gefa því nýtt líf.
Þau Anna Björg og Ari fóru þá leið að velja þrjú efni sem hvert um sig er lýsandi fyrir hvern aðkomustað.
Helgafellið sýnir m.a. grýtta fjallshlíð sem unnt er að tákna með steypu. Úlfarsfellið er skógi vaxið og viðurinn táknmynd þess. Loks er Leirvogsáin fljótandi vatn sem er táknað með gegnsæjum málmi.
Nýja aðkomutáknið verður þannig skúlptúr sem samanstendur af þessum þremur efnum sem eru lýsandi fyrir hvern aðkomustað. Hugmyndin felur líka í sér að hæð hvers efnis verði mismunandi eftir staðsetningu aðkomutáknsins.