Öryggismál í forgrunni hjá Miðflokknum
Hver þekkir ekki þá óþægilegu tilfinningu að óttast um öryggi barna sinna? Hver vill ekki gæta að heimili sínu og munum?
Mosfellsbær er ekki undanskilinn af þeim sem vilja leita skjótfengins gróða eða valda tjóni með einum eða öðrum hætti. Við viljum öll tryggja að heimilið sé öruggt og að börnin geti notið sín óáreitt, í friði og spekt.
Nábýli við náttúruna
Mosfellingar eru lánsamir að búa nær náttúrunni í allri sinni dýrð en flestir aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Fegurðin er til staðar hvar sem litið er, ár, sjór, fjöll og vötn. Nútíma samfélag hefur þróast hratt og samhliða hefur bæjarfélagið okkar gert það einnig. Við teljum að það sé ekki aðeins gott að búa í Mosfellsbæ heldur forréttindi. Við veljum þennan griðarstað vegna þess að hann er öruggur staður til að búa á og samheldni íbúa er mikil.
Vágestir
Það er ekkert launungarmál að hingað í okkar fallega bæ hafa komið aðilar og jafnvel sækja í hann til að nálgast muni eða selja það sem ekki má selja og hvað þá börnum og unglingum. Veip hefur aukist mikið og það er dulin hætta í því fólgin þó svo að það sé sjálfsagt skömminni skárra en sígarettur, munn- eða neftóbak og vindlar, en þörf er á að kanna betur. Hvert samfélag þarf að meta hvað skal til bragðs taka og hvernig það ver sig gegn utanaðkomandi hættu og áreiti.
Öryggi í fyrirrúmi
Miðflokkurinn leggur til að málið verði leyst með bæjarbúum og lögreglu þannig að lausnin verði til að takmarka hættuna frá því sem nú er og tryggja að allir séu sáttir með aðferðafræðina. Það er ekki boðlegt að hingað valsi aðilar inn og út í bænum og hafi þannig fullan og óheftan aðgang að börnum og unglingum sem oft leita í breytingar á lífi sínu eða til að leysa sína erfiðleika með stórhættulegum efnum.
Miðflokkurinn vill tryggja öruggari Mosfellsbæ fyrir alla.
Ásta B. O. Björnsdóttir er viðskiptafræðingur
og skipar 7. sæti á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.
Jón Pétursson er stýrimaður og skipar 16. sæti
á lista Miðflokksins í Mosfellsbæ.